Umhverfisráðuneytið stendur fyrir málþingi um Árósasamninginn, þar sem fjallað verður um upplýsingagjöf og samráð í umhverfismálum og aðkomu almennings, félagasamtaka og hagsmunaaðila að ákvarðanatöku í umhverfismálum. Málþingið fer fram miðvikudaginn 30. maí næstkomandi í Þjóðminjasafninu frá kl. 13:00 til 16:30. Það er öllum opið og er aðgangur ókeypis.

Alþingi samþykkti síðastliðið haust fullgildingu Árósasamningsins og tóku lög þar að lútandi gildi 1. janúar sl. Árósasamningurinn var gerður í Árósum í Danmörku árið 1998 og var Ísland meðal þeirra 38 ríkja sem undirrituðu hann.

Samningurinn tengir saman umhverfismál og mannréttindi þar sem hann byggist á því að fullnægjandi verndun umhverfisins sé nauðsynleg fyrir velferð mannsins og það að geta notið grundvallarmannréttinda. Samningurinn leggur skyldur á aðildarríkin að tryggja almenningi að geta haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið.

Á málþinginu verður fjallað um þýðingu og áhrif samningsins og hverju hann breytir fyrir stjórnvöld, almenning, félagasamtök og hagsmunaaðila. Fjallað verður um samráð við gerð skipulags og mat á umhverfisáhrifum, mikilvægi samráðs og upplýsinga til almennings. Þá verður fjallað um viðhorf atvinnulífs og félagasamtaka á sviði útivistar og umhverfisverndar til samningsins.

Dagskrá:

 • Ávarp - Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra
 • Árósasamningurinn, þýðing og áhrif - Sigríður Auður Arnardóttir, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu
 • Hverju breytir Árósamningurinn? - Róbert R. Spanó, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands
 • Samráð við gerð skipulags og mat á umhverfisáhrifum - Stefán Thors, forstjóri Skipulagsstofnunar
 • Mikilvægi samráðs og miðlunar upplýsinga - Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar
 • Kaffihlé
 • Árósasamningurinn og atvinnulífið - Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins
 • Hvernig getur Árósasamningurinn nýst náttúru- og umhverfisvernd? - Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar
 • Markmið og hlutverk útivistarsamtaka - Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands
 • Umræður
 • Samantekt og ráðstefnuslit

Fundarstjóri er Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu.

Birt:
May 18, 2012
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Málþing um Árósasamninginn 30. maí “, Náttúran.is: May 18, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/05/18/malthing-um-arosasamninginn-30-mai/ [Skoðað:Dec. 2, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 30, 2012

Messages: