Fyrir rétt rúmum 10 árum gerðu Náttúruverndarsamtök Íslands þá athugasemd við skýrslu Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar, að fjárfestingin myndi ekki skila arði. Eða, með öðrum orðum, eyðilegging öræfanna norðan Vatnajökuls yrði ekki réttlætt með þjóðarhag. Hið fyrr nefnda hefði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, ekki getað sagt skýrar á haustfundi fyrirtækisins í gær.

Matsskýrsla Landsvirkjunar bar með sér að enginn hagfræðingur kom að gerð hennar. Niðurstaða skýrsluhöfunda var sláandi lík niðurstöðu vitringanna þriggja sem fengnir voru til að rannsaka umhverfisáhrif Laxárvirkjunar með 54 metra hárri stíflu í Laxárdal og Mývatn sem uppistöðulón. Vissulega - sögðu vitringarnir - myndi framkvæmdin valda nokkru tjóni á náttúrunni þar um kring en hún væri þjóðhagslega hagkvæm.

Fram kom í máli Harðar Arnarsonar í gær að heildarstofnkostnaður Kárahnjúkaverkefnisins hafi verið 2,3 milljarðar Bandaríkjadala Áætlaður stofnkostnaður fyrirfram var 1200 milljónir dollara, skv. Sumitomo-skýrslunni sem gefin var út haustið 2001 til að svara gagnrýni Þorsteins Siglaugssonar fyrir hönd Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hvort tölurnar eru fyllilega sambærilegar skal ósagt láitð en þarna munar greinilega mjög miklu, nærri 100%.

Vakin er athygli á nýrri skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumál, greiningu Hagfræðistofnunar HÍ, 3.4. Þjóðhagsleg þýðing áætlaðra framkvæmda á bls. 42

Snúi maður röksemdafærslu Hagfræðistofnunar á haus má segja að skammtímaáhrif virkjana- og stóriðjuframkvæmda séu öðru fremur hagsmunir byggingaverktaka, verkfræðifyrirtækja, stjórmálamanna og einstakra landshluta. Mun síður langtímahagsmunir Íslendinga. Eins og Hagfræðistofnun bendir á:

Ef fjárfestingarnar eru hátt hlutfall af landsframleiðslu kann að vera erfitt fyrir peningayfirvöld að halda aftur af verðbólgu.    
Langtímaáhrif af stóriðjufjárfestingum eru miklu óvissari en skammtímaáhrifin.


Forstjóri Landsvirkjunar verður ekki skilin öðruvísi en svo að langtímaáhrif Kárahnjúkavirkjunar séu helst þau að það mun taka mun lengri tíma en ella fyrir fyrirtækið að skila eigendum viðunandi arði.

Birt:
Nov. 16, 2011
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Slök arðsemi Kárahnjúkavirkjunar“, Náttúran.is: Nov. 16, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/11/16/slok-ardsemi-karahnjukavirkjunar/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: