Í Morgunblaðinu í dag er spurt stórt á forsíðu „Er hægt að byggja grænt á Íslandi?“. Yfirsögnin er eins og inngangur í greinarflokkinn „Út í loftið“ sem verið hefur í blaðinu síðustu sunnudaga og fjallar um umhvefisáhrif neyslu og hvað venjuleg fjölskylda getur gert til að taka ábyrgð gagnvart umhverfinu.

Niðurstöðu spurningarinnar ætti engan að undra og hvað síst okkur sem staðið hafa að þróun Náttúrunnar nú til fjölda ára. Við kannanir t.d. í byggingavörumörkuðum rákumst við alltaf á veggi og bæði verslunarstjórar og starfsfólk virtist ekki vita hvað við ættum með það að spyrja um eins asnalega hluti og hvort að umhverfisvottaðar vörur væru í boði. Þó með nokkrum undantekningum en þá var um einstaka áhugasama afgreiðslumenn að ræða, ekki um stefnumörkun innanbúðar. Niðurstöður okkar eru allar skráðar og skjalfestar og við vinnum stöðugt úr þeim og reynum að finna ýmsar leiðir til að upplýsa neytendur um hvað hægt er að fara fram á þegar verslaðar eru einföldustu sem flóknustu vörur til heimilisins og til húsbygginga. Hér á Grænum síðum höfum við skráð niðurstöður kannana okkar hvað varðar einstök fyrirtæki og hvað hver er að bjóða upp á á Íslandi í dag. Þegar fram líða stundir viljum við hafa skráð nákvæmlega hverjir selja vistænar vörur til hvers brúks og á hvaða forsendum. Nú þegar eru 550 fyrirtæki og stofnanir skráð á Grænar síður.

Vandinn er enn sá að Íslendingar eru rétt að venjast miklu úrvali af lífrænum matvörum og svansmerktum þvottaefnum og nokkrum sanngirnisvottuðum vörum í verslunum en vita ekki mikið meira en að framboð sé að aukast á þessu svið. En umhverfisvottun tekur til allra vöruflokka og framboðið er því miður ekki að aukast á sviði byggingarvara né er almenningur upplýstur um hvað það að byggja vistvænt eða sjálfbært þýði yfirleitt. Í nágrannalöndum okkar eru neytendur upplýstir og krefjast þess að byggingamarkaðurinn þeirra bjóði upp á vörur sem eitri hvorki umhverfið né fjölskylduna. Hér á landi hefur enn ekki verið unnið að vistvænum viðmiðum fyrir byggingariðnaðinn hvað þá vistvænum innkaupaviðmiðum fyrir hinn almenna neytenda. Vistvæn innnkaupaviðmið fyrir ríki og borg eru ekki einu sinni tilbúin.

Náttúran.is leitast við að sinna því hlutverki að upplýsa neytendur um þær staðreyndir sem markverðar eru og varða umhverfis- og heilsuáhrif af neysluvörum almennt. Það tekur einnig til byggingarefna eins og framast er unnt með þær upplýsingar sem fyrir finnast og sannarlega standast íslenskan raunveruleika og aðstæður. Það verður þó án efa nokkur bið á því að til séu staðlar sem byggingaraðilar og húskaupendur geta stuðst við. Komið hefur til tals að gefa húsum einkunn hvað varðar sjálfbærni og umhverfisáhrif. Hús með einkunnina 7 væri t.a.m. ekki eins orkuný tin og hús með einkunnina 9 og því ekki eins verðmæt eign. Til þess að hægt sé að nota slíkar aðerðir verða að vera til niðurstöður af vísindalegum rannsóknum sem eiga við við íslenskar aðstæður. Slík viðmið verða stjórnvöld að kosta og hrinda í framkvæmd hið fyrsta. Við vistum gjarnan grunninn og tengjum vöruframboði sem stenst þær kröfur sem þar koma fram.

Í Húsinu og umhverfinu er að finna mikið af þeim upplýsingum sem neytendur þurfa á að halda til að auka umhverfisvitund sína og á Grænum síðum er nú þegar hægt að hafa yfirlit yfir fyrirtæki sem bjóða upp á umhverfisvottaðar vörur eða eru sjálf umhverfisvottuð, en Grænar síður verða enn öflugri þegar að opnað verður á innri upplýsingar sem þar liggja. Öllum vottuðum vörum á Náttúrumarkaði fylgja ennfremur ítarlegar skýringar á hvað vottunin þýðir og yfir hvað hún nær.

Birt:
Nov. 18, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisvitund leiðir til grænna ákvarðana“, Náttúran.is: Nov. 18, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/11/18/umhverfisvitund-leioir-til-graenra-akvaroana/ [Skoðað:Sept. 27, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Nov. 13, 2011

Messages: