Stórefla á almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu á næstu tíu árum og tvöfalda hlutdeild þeirra í umferðinni. Ríkið mun veita tíu milljarða króna í verkefnið á tímabilinu. Fulltrúar Vegagerðarinnar, ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu undir samning þess efnis á mánudag.

Samningurinn hefur verið í undirbúningi lengi. Meginmarkmið og tilgangur þessa tilraunaverkefnis er meðal annars að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem eru farnar á höfuðborgarsvæðinu og lækka samgöngukostnað heimila og samfélagsins. Þá er ætlunin að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Með þessu samkomulagi á jafnframt að skapa forsendur til þess að fresta stórum samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.

Stýrihópur mun hafa umsjón með framkvæmd samningsins og mun einnig meta árangur af honum á tveggja ára fresti.Fyrstu breytingarnar munu eiga sér stað strax í júní að sögn Reynis Jónssonar, framkvæmdastjóra Strætó. Hann sagði í viðtali við Stöð 2 í gær að tíðni ferða aukist, akstur muni hefjast fyrr á morgnana og ljúka seinna á kvöldin.

Birt:
May 9, 2012
Höfundur:
þeb
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
þeb „Milljarðar veittir í almenningssamgöngur“, Náttúran.is: May 9, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/05/09/milljardar-veittar-i-almenningssamgongur/ [Skoðað:Jan. 28, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: