Eggjakaka með villijurtum
Til að halda upp á vorkomuna má gera eggjaköku með frönsku kryddfernunni fines herbes, sem samanstendur af kerfli, graslauk, fáfnisgrasi (estragon) og steinselju. Þessar fjórar jurtir fara prýðilega saman, hvað bragð snertir. En ástæðan fyrir hefðinni er líklega sú að þær hafa sprottið á sama tíma. Eigi maður gróðurhús geta ársgömul steinselja og fáfnisgras fengist á sama tíma og kerfill og graslaukur spretta úti. Annars er bara að gera tilraunir með þær kryddjurtir náttúrunnar sem finnast á hverjum stað. En vorjurtaeggjakaka skal það vera.

Villijurtarjómasósa fyrir pasta
Á vorin er líka tilvalið að gera villijurtarjómasósu fyrir pasta. Hvítlaukur og annar laukur, grænu stönglarnir af perlulauk ef maður á hann, er settur á pönnu og látinn meyrna í góðri olíu. Síðan er bætt út í tveimur lúkufyllum af fínt söxuðum, snemmsprottnum villijurtum (líka má nota bragðsterkt grænmeti, eins og karsa, steinselju eða klettasalat, spínat eða blaðbeðju). Ef graslaukur er notaður fer hann í með jurtunum. Þetta er aðeins látið taka sig á pönnunni og þá sett út á matskeið af góðu hveiti og hrært vel, svo hveitið jafnist. Þar næst er settur yfir vænn slurkur af matvinnslurjóma og aftur hrært kappsamlega uns sósan verður hæfilega þykk. Hafi maður gott soð við höndina má nota það til að drýgja rjómann, ef það þykir æskilegt, en þarf ekki bragðsins vegna. Þetta er svo saltað eða kryddað með pipar eftir smekk. Svo er bara að blanda saman við pasta, þarna fer skeljapasta vel og segja: Gerið þið svo vel!

Grafík: Kerfill, Hildur Hákonardóttir. Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. 

Birt:
May 14, 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Tvær uppskriftir fyrir vorjurtir“, Náttúran.is: May 14, 2014 URL: http://natturan.is/d/2007/11/06/tvr-uppskriftir-fyrir-vorjurtir/ [Skoðað:Dec. 9, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 6, 2007
breytt: May 14, 2014

Messages: