Hljómplata Bjarkar Guðmunsdóttur Biophilia er komin út og hefur nú þegar vakið heimsathygli. Um er að ræða stórvirki á mörgum sviðum, tilraun til nýstárlegrar heildrænnar sýnar á tengsl manns og náttúru, tækni og tónlistar. Og sú þverfaglega margmiðlunartilraun heldur áfram, nú taka grunnskólanemendur þátt í að þróa nýja tónvísindasýn !

Fyrsta af níu Bíófílíu-tónleikasýningum á Iceland Airwaves-hátíðinni í Hörpunni verður haldin í samstarfi við Smekkleysu miðvikudaginn 12. október.

En strax þriðjudaginn 11. október hefst Bíófílíu-hátíðin á Íslandi þegar Tónvísindasmiðja reykvískra grunnskólabarna tekur til starfa í Hörpunni og heldur áfram samhliða Bíófílíu-tónleikadagskránni.

Biophilia er ekki bara hljómplata og tónleikar heldur áframhaldandi tilraun til að sameina á nýjan leik vísindi og listir til að skilja í stærra samhengi tengsl mannsins við náttúruna. Hljómaplata Bjarkar Biophilia er útkoman af langri tilraunastarfsemi á sviði vísinda og tónlistar. Og tilraunastarfsemin heldur áfram: Í nafni Bíófílíu-samstarfsins býður Björk til tónvísindasmiðju í samstarfi við Reykjavíkurborg, Iceland Airwaves-tónlistarhátíðina og Háskóla Íslands.

Tónvísindasmiðjur Bíófílíu eru í gangi samhliða tónleikaröðinni í Hörpu. Sú þverfaglega og róttæka starfsemi sem þar fer fram er tilraun sem hófst í Manchester í sumar og verður áframhaldið um allan heim. Skapandi rannsóknarstarfsemi í tónmenntum þar sem klassísk fræði tengjast nýjustu tæknilegum rafundrum heimsins er hér að verða veruleika og í framhaldinu mun tónmenntakennsla í grunnskólum landsins vonandi verða tengd við heildræna hugsun og nýsköpun.

Börn fá hér tækifæri til að vinna með sérfræðingum á sviði náttúruvísinda, tónlistar og tölvutækni. Auk þess munu þau vinna með tónlist Bjarkar sem og með hljóðfæri hennar, en þau eru einstök g hafa sterk tengsl við náttúruvísindi og tölvutækni.

48 nemendur úr þremur grunnskólum í Reykjavík ríða á vaðið í þessari ögrandi og spennandi tilraun þar sem numið er með sjón, heyrn og snertingu. Nemendurnir koma úr þremur skólum og eru á aldrinum 10-12 ára, úr fimmta, sjötta og sjöunda bekk. Tónmenntakennarar, náttúrufræðikennarar, skólahljómsveitarstjórar og vísindamenn og kennarar úr Háskóla unga fólksins sem eru þrautreyndir í gagnvirkum kennsluaðferðum leiða nemendurna inn í tónheim Bíófílíu í sérhönnuðum vísinda- og tónfræðismiðjum.

Nemendur fræðast ekki bara um heim tónfræðinnar, hljóma, tónraðala, takta, bassalínur, forskriftir, strúktúr og skala heldur jafnframt um hulduheima svarthola, kristalla, tungls, eldinga, jarðreka, þyngdarkrafts, vírusa, möndulhalla og erfðaefni (DNA). Inni í undraheimi Bíófílíu læra nemendur á snertivirkni-smáforrit (Öpp) sem eru þau fyrstu sinnar tegundar í heiminum og skapa í framhaldinu sínar eigin útsetningar og tónsmíðar og hjálpa jafnframt til við að móta námskrá framtíðarinnar. Í framhaldi verður fleiri börnum boðið að taka þátt í þessari þverfaglegu tilraun innan grunnskóla Reykjavíkur.

Upplýsingar er að finna á nýrri vefsíðu á www.bjork.com.
Grafík: Skjáskot af nýjum vef Bjarkar.

Birt:
Oct. 11, 2011
Tilvitnun:
Oddný Eir Ævarsdóttir „Samstarf Bjarkar, Háskóla íslands og Reykjavíkurborgar: Náttúra, tónfræði og vísindi. Nám og leikur!“, Náttúran.is: Oct. 11, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/10/11/samstarf-bjarkar-haskola-islands-og-reykjavikurbor/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: