Hreint ehf hefur fengið vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins fyrir ræstingarþjónustu. Strangar kröfur Svansins tryggja að fyrirtækið er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa starfseminnar.

Aðstoðarmaður umhverfisráðherra veitti leyfið föstudaginn 25. júní, klukkan 11:00 á aðalskrifstofu fyrirtækisins að Auðbrekku 8 í Kópavogi. „Það er okkur hjá Umhverfisráðuneytinu gleðiefni að sjá að stöðugt fleiri íslensk fyrirtæki bætast í fríðan flokk Svansvottaðra fyrirtækja. Með því að uppfylla kröfur Svansins tryggja fyrirtækin að vörur þeirra og þjónusta lágmarki neikvæð áhrif á umhverfið. Þetta er auðvitað sérstaklega mikilvægt í geira eins og ræstingum þar sem notkun sterkra og skaðlegra efna eru oft hluti starfseminnar. Það má því segja að Svansvottun Hreint færi okkur enn einu skrefinu nær hreinni og heilnæmari heimi og því ber sannarlega að fagna.“ segir Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.

Sjá fyrirtækin níu sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.

Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki og hvað vörurnar heita. Sé varan til nákvæmlega skráð til sölu eða kynningar er hana að finna í Svansbúðinni hér á Náttúrumarkaði. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.

Einnig er hægt að sjá gott yfirlit yfir aðilana hér á Græna Íslandskortinu í flokknum „Umhverfisvænar vörur“.

Um Hreint
Hreint ehf. er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað 12. desember 1983 og er eitt elsta og stærsta ræstingaþjónustufyrirtæki landsins. Fyrirtækið sérhæfir sig í að þjóna fyrirtækjum og stofnunum með reglulegri ræstingu og tengdri þjónustu. Starfssvæði þess er höfuðborgarsvæðið, Akureyri, Akranes, Hveragerði og Selfoss. Hreint er meðal 300 stærstu fyrirtækja landsins en á síðustu 8 árum hefur fyrirtækið vaxið 8 sinnum að veltu og er nú annað stærsta fyrirtækið á þessu sviði hérlendis. Starfsmenn eru um 130 en þar af starfa 115 við ræstingar. Framkvæmdastjóri Hreint Ari Þórðarson segir: „Í öllu okkar starfi leggjum við áherslu á gildin okkar sem eru; frumkvæði, samvinna, traust og fyrirmynd. Frá formlegri vottun Svansins hefst nýr kafli í sögu og þróun Hreint enda um tímamót að ræða. Sem fyrirtæki teljum við að Svanurinn er sé mjög mikilvægt skref til frekari gæðaaukningar á mörgu í starfseminni, aukinni umhverfisvernd, vexti og aukinni arðsemi rekstrarins.”

Kröfur Svansins fyrir ræstiþjónustur:
- Strangar kröfur um efnanotkun. Að minnsta kosti 50% hreinsiefna verða að vera umhverfismerkt, bann við notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu og heilsu fólks. Heildarnotkun efna er lágmörkuð með réttri skömmtun.
· Mengun vegna flutninga fyrirtækisins er lágmörkuð með kröfu um nýlegan bílaflota sem uppfyllir kröfur um útblástur.
· Lögð er áhersla á að lágmarka notkun plastpoka, flokka úrgang og velja umhverfismerktar vörur í innkaupum.
· Gæði ræstingar eru tryggð með reglulegri þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að fylgjast með gæðum þjónustunnar.

Birt:
July 6, 2010
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Ræstingarþjónustan Hreint er komið með Svansvottun“, Náttúran.is: July 6, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/07/06/raestingarthjonustan-hreint-er-komid-med-svansvott/ [Skoðað:Dec. 5, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: July 8, 2010

Messages: