Ríkisstjórnin samþykkt í vikubyrjun lagafrumvarp, sem ætlað er að hvetja til aukinnar notkunar á vistvænum ökutækjum. Þar er m.a. gert ráð fyrir að vörugjöld af metanbílum verði felld niður tímabundið (til ársloka 2008). Þá samþykkti ríkisstjórnin að mælast til þess við ríkisstofnanir að þær kaupi vistvæna bíla þegar þær endurnýja bílakost sinn. Markmiðið er að í lok árs 2008 verði 10% af bifreiðum í eigu ríkisins knúnar vistvænum orkugjöfum, 20% í lok árs 2010 og 35% í lok árs 2012.

Samkvæmt núgildandi lögum eru vörugjöld af bílum búnum vélum, sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu 240 þús. kr. lægri en ella og ökutæki, sem eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni eru alfarið undaný egin gjaldskyldu. Þessar sérreglur gilda til ársloka 2008 en fyrir þann tíma er gert ráð fyrir að mótuð verði heildarstefna um skattlagningu bifreiða sem nýta umhverfisvæna orkugjafa. Sjá grein á vef forsætisráðuneytisins.
-
Af ofangreindu er að dæma að ekkert breytist með lagafrumvarpinu annað en að vörugjald af mentanbílum einum falli alfarið niður í tæp tvö ár. Reyndar líka af vetnisbílum og hreinum rafmagnsbílum en þeir verða nú ekki margir á þessu tímabili. Það er til mikilla hagsbóta fyrir þróun í notkun metanbíla en gerir ekki mikið gagn að öðru leiti. Nú á aðeins eftir að reisa fleiri áfyllingarstöðvar og fá metanumræðuna virkilega í gang þannig að fólk velji frekar að keyra á metanbílum. Hin 240 þús. kr. lækkun á vörugjöldum á bíla eins og t.a.m. tvinnbílinn Toyota Prius lækkar því ekkert frekar. Ekkert er minnst á að hróflað verði við afstöðu stjórnvalda til stóru pallbílanna með kraftmiklu bensínvélarnar sem vaða nú yfir landið vegna þess að vörugjaldi á þá var alfarið fellt niður.

Myndin er af söngvaranum Willie Nelson við opnun dælustöðvar fyrir vistvæna orku „Bio-diesel“ en vestan hafs er umræðan um vistvæna orkugjafa og umhverfisvæna lífshætti í hámarki um þessar mundir.

Birt:
March 10, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hógvær vistvænisstefna rétt fyrir kosningar“, Náttúran.is: March 10, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/03/16/hogvaer_vistvaenisstefna/ [Skoðað:Oct. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 16, 2007
breytt: April 29, 2007

Messages: