Á vef umhverfisráðuneytisins var í gær birt frétt um að ráðuneytið hafi sett sér umhverfisstefnu og umhverfisstefnan birt í heild sinni (sjá fréttina) Sú staðreynd að áður hafi sjálft ráðuneyti umhverfismála ekki sett sér stefnu í eigin málaflokki er í sjálfu sér fréttnæmt og líklega fréttnæmt út fyrir landsteinana.

Sjálfsagt er því að nota tækifærið og benda á að á flestum ríkisstofnunum svo sem skólum á lág- og háskólastigi og skrifstofum hins opinbera út um allt land er engri umhhverfisstefnu fylgt enda engin hvati fyrir hendi frá stjórnvöldum til þess. Háskóli Íslands er gott dæmi um raunveruleikann í umhverfisráðstjórn á landinu. Stofnun sem stundar kennslu í umhverfisfræðum hefur enga umhverfisstefnu og stundar t.a.m ekki einu sinni skipulagða endurvinnslu innan skólans.

Annað dæmi er „Vistvæn innkaupastefna ríkisins“ en hún er enn að bisast við að fæðast og hefur verið undirbúin og unnin af umhverfisfræðingum í hjáverkum nú til margra ára. Rétt eins og að nægur tími væri til stefnu en staðreyndin er að landið sem státar af því að vera ákaflega umhverfisvænt því orkan sé unnin með vatnsafli og jarðvarma er í raun ekki bara aftarlega á merinni heldur situr merina varla. 

Hér á vef Náttúrunnar hefur farið fram skipulögð upplýsingastarfsemi bæði um hvernig bera megi sig að við gerð umhverfismarkmiða og grunnhugsun umhverfisvitundar hefur verið matreidd á ný stárlegan og ferskan hátt svo að fólk á öllum aldri, bæði heima við og á vinnustað geti nýtt sér þessar upplýsingar þannig að umhverfismeðvitaðir lifnaðar- og starfshættir verði ríkjandi en ekki vikjandi á Íslandi. Við hvetjum stofnanir og fyrirtæki til að kynna sér hvað felst í umhverfisstjórnun og ráðfæra sig við fagaðila um útfærslur. 

Á grænum síðum og grænu Íslandskorti Náttúrunnar er hægt að sjá hver er að gera hvað í græna átt og m.a.hver sé með opinbera umhverfisstefnu (sjá þá aðila sem hafa opinbera umhverfisstefnu). Umhverfisráðuneytinu hefur nú verður bætt á þann lista og er ráðuneytinu hérmeð óskað til hamingju með framtakið þó seint sé en jafnframt hvatt til hvetja stofnanir á vegum ríkisins til að gera slíkt hið sama.

Myndin er frá undirritun umhverfisstefnu Umhverfisráðuneytisins.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri undirrita umhverfisstefnuna. Umhverfisteymi ráðuneytisins fylgist með. F.v. Eva Þórarinsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Sigurbjörg Sæmundsdóttir og Þórunn Elfa Sæmundsdóttir.
Birt:
Sept. 12, 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisráðuneytið loks með umhverfisstefnu“, Náttúran.is: Sept. 12, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/09/12/umhverfisraouneytio-loks-meo-umhverfisstefnu/ [Skoðað:Oct. 7, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Sept. 13, 2008

Messages: