Tíminn líður og drengurinn stækkar og stækkar. Guttinn er að verða fjögurra mánaða. Það sem er svo yndislegt er, að persónuleiki hans og vilji er að koma í ljós. Honum finnst gaman að horfa á stóra gröfu moka snjó en leiðinlegt að vera settur í ömmustólinn. Honum finnast strútar skrýtnir en pabbi sinn bæði skrýtinn og skemmtilegur. Og mamma er best í því að skipta um kúkableyjur. Það gefur hann greinilega til kynna.

Við erum búin að fá ótrúlegustu ráðleggingar frá vel meinandi fólki, en sumt virðast bara vera gamlar kerlingarbækur sem ganga aftur eins og draugar frá einni kynslóð til annarrar. Ein kerlingarbókin er að það eigi bara að gefa börnum vatn á næturnar þannig að þau bara gefist upp, og annað hvort verði hálf hungurmorða eða hætti að biðja um mjólk á næturnar.  Mín reynsla er sú að ungabarnið biður ekki um mjólk nema það sé svangt. Ef ungabarnið grætur er óþekkt sennilega ekki skýringin. Líklegra er að eitthvað sé að, - gleymst hafi að skipta um bleyju, að bakflæði eða gubb sé í hálsinum, eða tennurnar séu farnar að koma fram. Það er yfirleitt ekki svo að ungabarnið gráti af frekju...slíkt kemur e.t.v. fram seinna en þó jafnvel aldrei að neinu marki hjá sumum börnum.

Börn eru svo afskaplega miklir einstaklingar. Þau líkjast sjálfum sér og fyrstu mánuðurnir fara í það að kynnast hinum nýja einstaklingi sem er kominn í heiminn. Ef barnið er með bakflæði á fyrstu vikunum getur það verið erfitt vegna þess að barnið er svo lítið og getur því auðveldlega svelgst á. Hins vegar þegar barnið er orðið nokkurra mánuða er það orðið svo sterkt og öruggt með pelann að hættan á því að barninu svelgist á verður hverfandi. Um að gera að slaka á en tala við sérfræðinga ef maður er óöruggur og vill vera viss. Með ungabarn í höndunum vilja foreldrar alltaf vera vissir.

Um daginn fjárfesti ég í leikgrind handa Sigga. Honum líkar ágætlega við hana. Hann getur legið í henni og reynt að velta sér á hliðina sem er eitt af hans helstu áhugamálum þessa dagana. Hitt áhugamálið er að skríða og spyrna með fótunum. Hann spyrnir svo fast í magann á mömmu og pabba að þeim verður um og ó. Drengurinn er að nálgast 7 kg og við foreldrarnir erum farin að finna dálítið til í bakinu þegar við erum að dröslast með hann fram og til baka. Eitt gott ráð við þessu er að fá sér sjal eða poka sem er þannig að hægt er að vera með barnið á maganum. Þannig er líka hægt að fara í gönguferðir t.d. næsta sumar. Einnig eru til stórir bakbokar til að bera börn stærri en eins árs, sem gætu hentað fyrir einhverja göngugarpa, en það er sjálfsagt að byrja snemma að fara með börnin út í náttúruna.

Þótt sjónvarpsstöðvar eins og ungbarnasjónvarpið breska – Baby TV séu skemmtilegar og þroskandi að vissu leyti, þá er veröld þeirra dálítið óraunveruleg og á köflum of tölvugerð. Það er því nauðsynlegt að barnið sé ekki bara sett fyrir framan sjónvarpið heldur fái sem mest að  kynnast hinum raunverulega heimi sem er úti á róló og úti í hinni guðsgrænu náttúru. Við hér á Íslandi erum heppin að hafa einstaka möguleika á því að ala börn okkar upp að hluta til úti í náttúrunni, enda ekki nema um hálftímaakstur frá höfuðborginni út í sveit.

Birt:
Feb. 23, 2010
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Um fjögurra mánaða aldurinn“, Náttúran.is: Feb. 23, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/02/23/um-fjogurra-manada-aldurinn/ [Skoðað:July 11, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Feb. 25, 2010

Messages: