Í gærmorgun var því slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins að „umhverfið verði tekið fram yfir tugi milljóna“. Var þar átt við að Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanessbæjar ætli að sýna þvílíkan nágrannakærleik og umhverfisvitund með því að „ýta hluta álversins fyrirhugaða í Helguvík“ inn á land sem tilheyrir sveitarfélaginu Garði. Í fyrsta lagi hefur það ekki legið fyrir nema sem tillögur að álver rísi í Helguvík og samþykktir til framkvæmda ekki fyrirliggjandi og mikil óánægja í þjóðfélaginu yfir því að nokkuð álver fái að stækka eða fæðast eftir það sem undan er gengið.
Árni vill greinilega hafa vaðið fyrir neðan sig og vill bendla sig tímanlega við umhverfisvæna skipulagshætti, sennilega til að tryggja sér sitt álver.

Látið er líta út fyrir að hér sé Árni að sýna mikla sanngirni við nágranna sína og sýni umhverfinu mikla virðingu. Talað er um að Árni gefi með þessu frá sér tugi milljóna í fasteignagjöld. Tugir milljóna eru ekki miklir peningar og vinnast fljótt í mögulega minna skertu fasteignamati á lóðum í nágrenni eða á mörkum þynningarsvæðis álversins. Árni kann að reikna og sér nú að fólk vill ekki endilega álver í nágrenni sínu. Það má því frekar orða það þannig að hann sé nú að forða sínu fólki og troða þessu álveri sínu, ímyndaða, upp á nágranna sinn.
-
Greinarhöfundur fær ekki séð að umrædd frétt sé nema í besta falli skrifuð að fávisku og skorti á heildaryfirsýn yfir það hvað bygging álvers af þessari stærðargráðu (þó aðeins eigi það að verða 150 þús. tonna) þýðir í raun og veru í umhverfisáhrifum. Þá skiptir engu máli hvar ímyndaðar sveitarfélagslínur liggja og það að Árni vilji hafa hluta versins inni í Garði gefur ekki nokkuð tilefni til að státa af umhverfisverndarhugsjónum.
-
Aðrir sem ekki eru eins spenntir fyrir álveri á Reykjanesi og Árni Sigfússon og hafa aðra sýn fyrir svæðið, halda opinn fund um álver í Helguvík, í Svarta pakkhúsinu, Hafnargötu 2 í Reykjanesbæ.
Sjá frétt á vef Landverndar.

Birt:
Jan. 11, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Góður eða grimmur Árni?“, Náttúran.is: Jan. 11, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/03/16/godurgrimmur_arni/ [Skoðað:Oct. 3, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 16, 2007
breytt: April 30, 2007

Messages: