Dansleikir á fyrri tíma vísu voru einkum kallaðir gleði eða vökunótt. Síðara heitið lýtur að því, að fólk kom einkum saman til að skemmta sér kvöldið og nóttina fyrir helgidaga, en tíðasöngurinn þá var á íslensku nefndur vaka sem þýðing á vigilia. Þegar talað er um vökunætur, á það ekki endilega við jólin, en getur gert það, eins og segir í skjölum Garðakirkju um vökunótt í Reykjavík árið 1555:

“Þá stóð þetta so fram til jóla 1555. Var þá Páli Stígssyni boðið til gesta af herra Ormi Jónssyni í Vík annan dag jóla, því þar var vökunótt.”

Barátta yfirvalda gegn gleðisamkomum færðist mjög í aukana eftir siðabreytinguna, því að katólska kirkjan var mun frjálslyndari í þessum efnum. Vandlætingaskrif, sem eru helstu heimildir um skemmtanir fyrr á tímum, eru því naumast til frá pápískri tíð. Hinsvegar má ráða það af ummælum Odds biskups Einarssonar frá því um 1590, að vökunætur hafi verið mjög algengar fyrir siðbreytinguna:

“En geta má þess, að slíkir dansleikir hafa áður fyrr verið geysialgengir hjá okkur og ekki einungis hafðir gestum til yndis, heldur iðkaðir oft af heimafólki til yndis, heldur oðkaðir oft af heimafólki til gamans, og landsmenn hafa verið svo mjög sólgnir í þá, að mikill fjöldi fólks af báðum kynjum hópaðist saman á vissum stöðum í hverju héraði á ákveðnum árstímum á vökum helgra manna, einsog það er almennt kallað, og þar ærslaðist það heilar nætur að vanda Bakkusardýrkenda, ef svo má segja, við að dansa og þess á milli við að fremja aðra gleðileiki og skrípasýningar. Því að hvað á ég að kalla það annað, þegar fullvíst er, að á slíkum samkundum hafa verið margar hlálegar, blautlegar og lostasamar athafnir og sér í lagi afmorskvæði, en í þeim er sálinni búið nokkurt skaðræði. Því svo sem kvæðin sjálf eru snillilega samsett og listileg í sjálfu sé rþeim sem á að hlýða, þannig eiga þau einnig greiða leið að hjörtum manna, sérdeilis, ef hugþekkur söngur er samfara kveðskap. Því meir sem þau skemmta, þeim mun ákafar verka þau, æsa upp og knýja á og smjúga inn í vitundina með nokkru móti og æsa upp allskonar loga hið innra með manninum í brjósti hans og brenna þá aumlega upp, sem veiklundaðri eru og að eðlisfari hneigjast fremur að forboðnum nautnum. Af þessum áhrifum eru þessi léttúðugu kvæði á vorri tungu kölluð brunakvæði, og er það heiti vissulega ekki fjarri lagi.

Þar sem kirkjuyfirvöld vor hafa veitt þessu athygli og íhugað það og séð, að slíkt hátterni hefur fremur í för með sér heiðna villimennsku en kristilega og heiðvirða skemmtun, þá snúast þau réttilega gegn þessum ósiðum og fordæma þá, svo að nú eru þeir að miklu leyti lagðir niður víðast hvar.”

Oddur síðar Skálholtsbiskup virðist þarna nokkuð vongóður um, að brátt muni takast að kveða þennan ósóma algjörlega niður. Enda er nú tekið að gera samþykktir bæði á Alþingi og prestastefnum, sem banna þesskonar samkomur. En þótt náttúran sé lamin með lurk, leitar hún út um síðir. Og nærfellt hundrað árum seinna má lesa þetta í gerðabók prestastefnu, sem Þórður biskup Þorláksson heldur árið 1679:

“Var upplesið í Synodo virðulegs herra lögmannsins norðan og vestan á Íslanndi, herra Magnúsar Jónssonar opið bréf, hvar inni hann af guðlegri vandlætingu kvartar yfir einum og öðrum ósóma, sem þvi ver og miður í þessu fátæka landi allvíða tíðkast, hvar til velnefndur herra lögmaðurinn sérdeilis til nefnir Þorskafjarðarþing, hvar allvíða það vonda óskikk tíðkast, einkum á jólanótt árlega, að fólk samansafnist til dansleikja og annars apaspils, sem greint herra lögmannsins brég glöggvast útvísar.

Nú með því að svoddan vont athæfi er andstyggilegt og ólíðanlegt, þá er það alvarleg skikkan og áminning þessarar Synodi, að það öldungis afleggist og kennimennirnir gæti síns embættis að áminna söfnuðinn hér um og líði ei svoddan óskikk, hvorki á jólanótt né öðrum helgum dögum.

Veraldlega valdstjórn umbiðjum vér og sv, síðan skyldu hér úti að gjöra, og láta þá ei óstraffaða vera, sem heilaga drottins hvíldardaga þannin vanbrúka, guði til styggðar og náunganum til stórs hneykslis. Virðist kennidóminm hér við liggja fullkomin heilgibrotssekt, vonandi að guðhræddir valdsmenn muni hér eftir alvarlega ganga eftir skyldu síns embættis.”

Hér er greinilega verið að áminna sýslumennina og hreppstjórana, sem ekkiv irðast alltaf ahfa verið barnanna bestir að dómi kennimanna eins og brátt mun skýrt frá. Greinilegt er, að gleðinættur af þessu tagi hafa viðgengist sumstaðar fram um miðja 18. Öld. Því til staðfestingar skal hér birtur kafli úr bréfi frá Jóni Árnasyni Skálholtsbiskupi árið 1733 til prests nokkurs niðri í Flóa , sem hefur kvartað til biskups yfir atferli sóknarbarna sinna. Bréf biskups er dagsett 13. Janúar, svo að líklegast er, að umræddir gleðileikir hafi átt sér stað á nýliðnum jólum. Hann segir m.a.:

“Ég hefi meðtekið yðar vinsamlegt sendibréf, í hverju þér gefið mér að merkja, að vökunætur og gleðinætur séu í brúki niður í Flóa, í sóknum yðar, hverja þér viljið ekki líða og brúkið vandlæti í svoddan sökum vegna yðar embættis. Þér viljið og einnin vita, hverja þanka ég hefi um svoddan gleðileiki og yðar fyrirtekt. Ég svara: Svoddan vökunætur og gleðileikir eru, að minni meiningu, svívirðing bæði fyrir guði og öllum guðhræddum mönnum og eiga þessvegna engan veginn að líðast. Þeirra nytsemi er engin svo ég sjái, heldur eru þeir sæði andskotans í vantrúuðum mönnum, sem eru fullir gjálífi ogv vondum girndum og tilhneigingum, í hverjum djöfulsins ríki hefir fengið yfirhönd. Svoddan leikir koma fram af holds vellyst og elsku til heimsins… Ég þarf ekki að framfæra margar skriftarinnar grenir, sem hér að lúta, hefi ekki heldur tíma til þess að uppleita. Það er oss nóg, að kóngleg majestet bannar útþrykkilega svoddan leiki, sem eru ekki annað en verk myrkranna, því að svo stendur í lögum: Al letfærdig og forargelig Legn om Juul eller adre Tider og Fastelavns Löben forbydes strengeligen og bör alvorligen at straffes.”

En nú tekur heldur betur að syrta í álinn fyrir þessum gleðisamkomum. Skömmu fyrir miðja 18. Öld voru sendirhingað til lands þeir Lúðvík Harboe og Jón Þorkelsson til að líta eftir kristnihaldi og siðgæði í landinu. Þeir fundu margt athugavert, að þeim þótti og öðru vísi en í Danmörku Þeir sendu álitsgerðir til stjórnarinnar í Kaupmannahöfn, og í kjölfar þeirra komu konunglegar tilskipanir, sem m.a. bönnuðu Íslendingum í reynd að skemmta sér við annað en guðsorðalestur og sálmasöng. Eðlilega áttu sýslumenn ásamt prestum að fylgjast með því, að þessu banni væri hlýtt. Einn hinn síðasti þeirra, sem haldið hefur jólagleði, áðurn en hið konunglega bann dundi endanlega yfir, mun vera Jón Hjaltalín sýslumaður í Reykjavík. Um dansgleði hans orti sr. Gunnar Pálsson Eitt sunnslenskt vikivakakvæði sennilega kringum 1740, og í því eru þessi erindi:

Nóttina fyrir nýársdaginn
Nokkuð trúi ég haft sé við.
Fellur mönnum flest í haginn
Fullum upp með gamanið.
Þá er á ferðum enginn aginn
Allir ráða gjörðum sínum
Hjá honum Jóni Hjaltalín –
Fagur kyrtill, fullur maginn,
Fallega þeir sér ansa.
-    allan veturinn eru þeir að dansa.

Annars dags kvöld eins í jólum
og aðfaranótt þrettándans
leika menn sem hlaupi á hjólum
hvergi verður gleðinnar stans.
Hætt er við þeir hringi tólum
hegðun sú má kallast fín.
Hjá honum Jóni Hjaltalín –
gaman er að soddan sjólum
sér þótt stofni vansa.
-    allan veurinn eru þeir að dansa.

Annar sýslumaður braut hinsvegar boðin freklega skömmu eftir að þau voru sett. Það var Bjarni Halldórsson á Þingeyrum í Húnavatnssýslu, sem hélt jólagleði þrjú ár í röð 1755-57 og bauð til fólki úr nágrenninu. Bjarni hefur verið maður mikillátur og ósmeykur við yfirvöld þessa heims og annars, svo sem víða má sjá í ritum. Sem spilara notaði hann jóskan mann að nafni Pétur, sem þá hafði aðsetur í Víðidalstungu og var einn þeirra, sem Skúli Magnússon landfógeti hafði fengið til að kenna Íslendingum jarðrlkt. Virðist hann hafa kunnað að leika á eitthvert blásturshljóðfæri, og var dansað eftir því.

Gegn þessu athægi sýslumanns reis prófasturinn á Staðarbakka í Miðfirði, sr. Þorsteinn Pétursson. Hann lét sér ekki nægja minna en srifa heila bók um henykslið, sem hann nefndi Leikafælu. Um þetta segir hann svo í ævisögu sinni:
Nýja árið 1757 byrjaði ég með þeim hjáverkum fram að föstutímanum að samantaka lítið syntagma eður skrif um og á móti jólaleikum eður dansi, sem sýslumaður vor seignor Bjarni Halldórsson hafði í þrjú ár samfellt látið halda um jólatímann á Þingeyraklaustri og brúka til siðamanns í þeim leik einn jutskan bónda, Pétur að nafni…

Eftir þessa Péturs pípu dansaði nú allur selskapurinn í Þingeyrastofu á hverju kvöldi fram á miðjar nætur frá þriðja í jólum til nýárs inclusive með gleði og gjálífi miklu. Þar til var og boðið þeim helstu verðslegu mönnum í héraðinu, jafnvel kvenfólki, og haldið gestaboð höfðinglegt með viðhöfn og veislu kræsilegri eins langan tíma, hvað framar er útfært í sjálfum bæklingnum, er ég þar um skrifaði, því ég gat ei orða bundist yfir svoddan siðum á þessum háskasmlega eymdartíma, þá svo margur aumingi, sem varð að kveljast og deyja út af hungri og vesöld, hlaut að hneyslast á slíku andvaralausu ríkismanna sælgæti, hvar tilþeirra sveiti var brúkaður.”

Í Leikafælu er sr. Þorsteinn ómyrkur í máli í vandlætingu sinni. Hann kallar þetta athæfi “skammarlæti og skrímslisleiki”, “fánýta gleði og dægrastytting”, “hégómlega gleðileiki og gagnslausa dægrastytting”, “ónytsamlega og ónauðsynlega gleðileiki”. Síðan segir hann:
“Sama er að segja um hina aðra gleðileiki, svo sem hjörtleik, hestreið, kerlingarleik (er þeir svo kalla) og annað þvílíkt gjálífi, sem brúkað kann að hafa verið hér og vhar í landinu, þar sem óráðvandur sollur hefir veirð saman kominn svo sem í sjóstöðum af verfólki. Þó hefir það ætíð verið gjört í hylmingu og við launung fyrir utan vilja og vitund bæði andlegs og veraldlegs yfirvalds, að ég meina, og þess forgöngumenn hafa víst fengið ávítur þar fyrir og að mestu hygg ég þetta hégómaathæfi sé nú af lagt alls staðar. Svo eru og þeir jólaleikir, sem skólapiltar hafa kannski í ungæði sínu tekið sér fyrir að halda á stólunum án vitundar og samþykkis sinna skólameistara. Þeir stálust að því, þá ég til vissi svo sem einum órælegum hlut, eins og náttúruleg skynsemi kenndi þeim það sjálf, að slíkur hégómaháttur væri ótilhlýðilegur fyrir þetta stand, jafnvel þótt þeir vissu þá svo lítið sem ekkert, hvað Guðs eður manna lög leyfðu eður bönnuðu í soddan sökum.

En engin veit ég dæmi til þess, að nokkurt kristið yfrvald hér í landi hafi látið halda þess háttar heiðinlega eiki fyrir sér eða autoriserað þá með gestaboðsveislu um jólatímann svo sem nú hefur heyrst í þrjú samfelld ár gjört vera á Þingeyraklaustri og fara vaxandi, svo varla sé helgidagskvöldum þyrmt þar fyrir.”
Lýsing Þorsteins á dansinum sjálfum er harla athyglisverð, ekki síst ef við berum hana saman við ýmis dansbrögð nútímans:
“Þyki nokkrum sem ég tali þetta út í tómanheiminn og enginn eigi hér hluta ð máli, þá vil ég láta öllum skynsömum mönnum eftir að dæma, hvort fyrrgreindir svokallaðir dansleikir á Klaustrinu um jólatímann forþéna ekki slíka critique, nær þeir eru með sinni réttu mynd og líking fyrir sjónir settir, svo sem hér segist frá:

Þessi leikur skal vera framinn með glensi og gamni af kallmönnum og kvenfólki til samans, með mörgum snúningum allt um kring, með stappi aftur á bak og áfram , með hoppi upp og niður, með hlaupum til og frá. Svo herðir sig hver að dansa eftir útblæstri eða andardrætti ludi magistri, og þegar suma svimar, svo þeir tumba um koll. Þá verða ýmsir undir. Fara þá föt og forklæði sem verða vill. Þá er og földum kvenna flug og forráð búið. Þessu skal vera hrósað og hlegið að eftir vonum af Potestate Supereminente.. Brennivín er þá við höndina að hressa hinn gamla Adam ,svo hann þreytist hvorki né uppgefist, fyrr en mælir syndanna er uppfylltur.”

Hvort sem þessi heiftarlega gagnrýni séra Þorsteins hefur valdið því eða afskipti enn æðri yfirvalda, sýnist Bjarni sýslumaður hafa hætt þessum jóladansleikjum, sem virðast hafa verið síðustu stórdansleikirnir í fyrri tíðinni. Óljósar heimildir eru að vísu um jólagleðir síðar á öldinni, einkum á afskekktari stöðum, svo sem undir Jökli, en þó frekar norðarlega á Vestfjörðum. En á heildina litið lagðist hið gamla dansleikjahald niður og fyrir bragðið gleymdum við og týndum okkar gömlu þjóðdönsum og munum trúlega aldrei finna þá aftur í upphaflegri mynd.

Ljósmynd: Jóladót á borði í Jólahúsinu, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
Dec. 16, 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Jólagleði“, Náttúran.is: Dec. 16, 2013 URL: http://natturan.is/d/2007/04/12/jlaglei/ [Skoðað:Nov. 29, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: April 12, 2007
breytt: Jan. 1, 2013

Messages: