Urmæðan um vistænt eldsneyti tekur reglulega kippi og dalar svo aftur í umræðunni hér á landi. Nokkrar atrennur hafa verið gerðar til að fá stjórnvöld til að rýmka fyrir tollum á bíla sem ganga fyrir vistvænni orku en olíu en útkoman varð sú að rýmkað var fyrir tollum á pallbílum sem gerði landann snarvitlausan í þau tæki. Afleiðingarnar urðu svo aftur þær að nú státa Íslendingar af mesta útblæstri á íbúa í öllum heiminum enda karlmennska (eða karlmennskuleysið) greinlega mælt með stærð fararskjótans. En margt hefur breyst og nýlega leit skýrsla nefndar sem fjallað hefur um mögulegar breytingar á skattaumhverfi bifreiða dagsins ljós og raunverulegar útfærslumöguleikar orðnir skýrari. Sjá: Heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis.

Framtíðarorka tók af skarið sl. haust og boðaði til ráðstefnu og sýningar um Vistæn ökutæki og vakti umræðuna af værum blundi. Aftur boðar Framtiðarorka, sem er einkahlutafélag, til ráðstefnu í haust og mun þá væntanlega vera komið vistvænna hljóð í skrokk landans sem er að bugast af uppsprengdu orkuverði. Hvort sem að ástæðan er þá sparnaðarvon eða umhverfismeðvitund skiptir ekki máli svo framarlega sem að vistvænni bílar komast á götur landsins.

Vandamálið hefur m.a. legið í því að vistvæna orkugjafa eins og metan er aðeins hægt að fá á bílinn á einni stöð á landinu, þ.e. á Bíldshöfðastöð Esso (nú N1). N1 á stóran hlut í Metan hf. sem framleiðir metan í Gufunesi og hefur gert til margra ára. Rúmlega eitt hundrað metanbílar eru skráðir á landinu í dag, þrátt fyrir að aðeins sé ein áfyllingarstöð fyrir hendi. 

Forsætisráðherra Geir Haarde kom með viljayfirlýsingu þess efnis á Austurvelli þ. 17. júní sl. að ríkisstjórnin muni styrkja vistakstursverkefni Toyota og VÍS þar sem Landvernd og Orkusetur munu sjá um að kenna vistakstur á svokalllaða vistakstursherma. Geir hvatti landsmenn til að velja vistvænni bíla og taka þannig sjálfir þátt í að spara við sig dýra orkuna og um leið minnka útblástur.

Iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson tilkynnir síðan í gær að fjölorkustöðvar séu framtíðarfyrirkomulag sem að studdar verði með ráðum og dáðum frá ráðuneyti hans. Þetta sé allt á teikniborðinu.

Á nýrri stöð N1 við Bíldshöfða mun verða hægt að fylla biodíesel, metan, etanól og rafmagn á bíla en við Hringbraut, Skógarsel og Reykjavíkurveg hefur verið hægt að fylla biodiesel á bíla í rúmt hálft ár. Áformað er að nýjar stöðvar N1 og endurnýjaðar verði útbúnar dælum fyrir vistvænt eldsneyti hringinn í kringum landið og eru þá komnar þær fjölorkustöðvar sem að lengi hefur verið beðið eftir og iðnðarráðherra boðaði í gær.

Íslensk NýOrka selur vetni í Vetnisstöðinni við Ártúnshöfða fyrir þá fáu bíla sem ganga fyrir vetni á Íslandi í dag. Olís Álfheimum opnaði etanól-dælu í fyrrahaust en örfáir tvíorkubílar sem notað geta etanól eru til á landinu. Orkuveita Reykjavíkur opnaði orkupósta fyrir rafbíla í Bankastræti, Kringlunni og Smáralind fyrr á árinu, þó fáir bílar keyri á raforku enn sem komið er. Allt eru þetta spor í rétta átt en ef N1 hefur frumkvæði að því að koma upp fjölorkustöðvum um allt land, á stuttum tíma er það tvímælalaust eitt mikilvægast skrefið sem hægt er að stíga til að koma Íslendingum í tengingu við grænni ferðamáta.

Birt:
June 24, 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fjölorkustöðvar og raunveruleikinn á landinu í dag“, Náttúran.is: June 24, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/06/12/n1-meo-metan-etanol-lifdisel-osfr/ [Skoðað:June 10, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: June 12, 2008
breytt: July 27, 2011

Messages: