Sunnudaginn 6. maí efna Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands til gönguferðar í Krýsuvík. Þátttakendur hittast á bílastæðinu í Seltúni kl. 11:00.

Byrjað verður á því að skoða hverasvæðið í Seltúni með allri sinni litadýrð. Þaðan verður gengið upp Ketilstíginn, hluta gamallar þjóðleiðar sem lá milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur yfir Sveifluhálsinn. Stórgott útsýnið yfir Krýsuvík og Móhálsadal verður skoðað ofan af hálsinum. Gengið verður umhverfis Arnarvatn og inneftir Sveifluhálsi í kynngimögnuðu hálendislandslagi sem kemur á óvart.

Móbergsmyndun í likingu við Sveifluháls og Núpshlíðarháls á sér varla hliðstæðu utan Íslands en þeir hafa hlaðist upp við sprungugos undir jökli. Þessu stórbrotna svæði er nú ógnað af stórfelldum virkjunarhugmyndum en í þingsályktunartillögu að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða var þetta svæði innan Reykjanesfólkvangs sett í orkunýtingarflokk.

Leiðsögumaður verður Ellert Grétarsson, náttúruljósmyndari og leiðsögumaður.

Reikna má með ca. 3 tímum í gönguna. Gönguhækkun um 150 metrar. Mest á fótinn rétt á meðan farið er upp á hálsinn. Göngulengd: 8-9 km. Þátttökugjald er 500 krónur sem fer í rekstrarsjóð félagsins. Þingmenn og sveitastjórnarfólk sérstaklega boðið velkomið.

Ljósmynd: Göngugarpar við Sveifluháls, ljósm. ©Ellert Grétarsson

Birt:
May 2, 2012
Höfundur:
Ellert Grétarsson
Tilvitnun:
Ellert Grétarsson „Náttúruverndarfélag Suðvesturlands býður til sunnudagsgöngu á Sveifluháls“, Náttúran.is: May 2, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/05/02/natturuverndarfelag-sudvesturlands-bjoda-til-sunnu/ [Skoðað:Sept. 21, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: