Eins og fram kom í síðustu viku rakst Orkuveita Reykjavíkur á áður óþekkt virkjanleg svæði á heiðinni og áformar í framhaldinu rannsóknir á svæðinu við Litla-Meitil sem er suðvestan við Hengil. Til stendur að bora þrjár rannsóknarholur allt að 3000 metra djúpar.

Skipulagsstofnun hefur nú úrskurðað að rannsóknarboranir við Litla-Meitil og Eldborg í sveitarfélaginu Ölfusi þurfi að fara í umhverfismat. Framkvæmdin kunni að hafa verulega neikvæð og varanleg áhrif á landslag og rþra útivistargildi svæðisins.

Í samantekt Skipulagsstofnunar kemur fram að holurnar eigi að afla upplýsinga um útbreiðslu jarðhitasvæðisins við Hengil. Þær eigi einnig að verða liður í eftirliti með jarðhitavinnslu á Hellisheiði.

Skipulagsstofnun telur að rannsóknarholurnar og tengdar framkvæmdir muni hafa veruleg umhverfisáhrif og að þau þurfi að meta. Stofnunin leitaði álits víða og benti Umhverfisstofnun meðal annars á að framkvæmdirnar skyldi skoða í ljósi annarra framkvæmda á Hellisheiði og í nágrenninu, enda fari óspilltum svæðum fækkandi.

Sveitarfélagið Ölfus hefur bent á að framkvæmdasvæðið sé að hluta ætlað til útivistar í aðalskipulagi. Bæjarstjórn telur eðlilegt að OR leggi fram heildaráform um nýtingu svæðisins áður en farið verði í rask með tilraunaborunum. Í svari OR við þessum athugasemdum kemur fram að hún telji að hægt sé að taka tillit til náttúruminja. Þá megi reyna að valda eins litlu raski eins og mögulegt sé.

Fram kemur í umfjöllun Skipulagsstofnunar að boruninni fylgi tveir borteigar allt að 4000 m2 hvor og þá þurfi að leggja rúmlega 2 km langan veg. OR getur kært ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra.

Myndin er af sandsteini undir hlíðum Litla Meitils. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Nov. 27, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Litli Meitill og Eldborg fari í umhverfismat“, Náttúran.is: Nov. 27, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/11/26/litli-meitill-og-eldborg-fari-i-umhverfismat/ [Skoðað:June 17, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 26, 2007
breytt: Nov. 27, 2007

Messages: