Rófur uxu hér á landi áður en kartöflur komu til sögunnar. Þær eru vinsælli hér en í mörgum öðrum löndum. Rófur, sem kálið hefur verið skorið af, geymast á köldum stað langt fram eftir vetri. Manngerðu sandsteinshellarnir á Suðurlandi eru fínar grænmetisgeymslur. Þaðan koma þær bestu á vorin, eins og þær hafi verið teknar upp í gær. Rófur eru góðar hráar en þá helst í sneiðum með einhverri spennandi ídýfu eða pestó. Þær eru síðri rifnar í salat. Soðnar og í stöppu eru þær ævinlega sígildar.

rófur og grænmeti á haustpönnu
Í þennan rétt má nota flest haustgrænmetið og hann er fljótlegur. Grænmetið er skorið í sæmilega litla strimla, til að eldunin gangi fljótt. Séu margar tegundir steiktar saman er gott að byrja á lauk og hvítlauk. Síðan koma rófustrimlar, þá kartöflustrimlar, kál og steinselja. Gulrætur eru góðar þarna og kálið má gjarnan vera hvítkál, en grænkál eða selja eða spergilkál er í lagi. Sumir myndu bræða svolítið smjör í olíunni þegar þeir steikja. Svo má gera meira úr þessu með því að steikja beikon fyrst og mylja og strá því yfir í lokin. Þarna má líka reyna steikt söl í staðinn fyrir beikon eða sleppa því alveg. Ef menn vilja síður steikja lengi er hægt að setja á pönnuna stóra matskeið af vatni eða soði og bregða loki yfir í nokkrar mínútur. Eða taka 1–2 tómata og skræla í heitu vatni og saxa út á. Þeir sjá þá um vökvann og ef lokið er sett á sþður grænmetið og síðan má krydda. Þetta er ákaflega hentugur réttur ef maður er að elda fyrir sig einan. Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Birt:
Oct. 15, 2008
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Rófur“, Náttúran.is: Oct. 15, 2008 URL: http://natturan.is/d/2007/11/12/rfur/ [Skoðað:Feb. 5, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 12, 2007
breytt: Nov. 25, 2010

Messages: