Fyrirtækið Hollusta úr hafinu hóf þróun á kryddlegnum sölvum og söl-puree árið 2006, en það ár fékk það úthlutað styrk úr smáverkefnaflokki AVS rannsóknasjóðsins til að þróa vöru úr íslenskum matþörungum og kanna hvort markaður fyrir þær vörur sé að opnast innanlands, kanna hvort markaðurinn sé nægjanlega stór til að það borgi sig að sinna honum og huga að sölu sölva á erlendan hollustu- og neysluvörumarkað. Nú áforma Hollusta úr hafinu og Matís að ljúka vöruþróun á framangreindri vöru.

Í verkefninu verður farið yfir uppskriftir, umbúðir og útlit í því markmiði að draga fram þá ímynd og eiginleika sem sóst er eftir, þ.e. bragðgóða vöru með gott geymsluþol sem ber jafnframt með sér hollustu og gæði. Þá verður hannað framleiðsluferli fyrir vinnslu og pökkun á vörunni.

Kryddlegin söl og söl puree, maukuð söl, er ný sælkeravara. Á markaði erlendis er kryddleginn þari, en ekki er vitað til að til sölu séu kryddlegin söl. Þetta er spennandi vara sem mun eflaust falla vel í landann sé tekið mið af vaxandi áhuga hér á landi á austurlenskri matargerð, s.s. sushi, en þar gegna þurrkaðir matþörungar einmitt stóru hlutverki.

Stofnandi Hollustu úr hafinu ehf. er Eyjólfur Friðgeirsson en verkefnisstjóri af hálfu Matís er Þóra Valsdóttir. Að sögn Þóru hefst vinna í verkefninu af fullum krafti í september, en hún segir að besti tíminn til að safna sölvum sé einmitt á vorin og haustin.

Það eru AVS sjóðurinn og Matís sem styrkja nýja verkefnið.

Þessar upplýsingar koma fram á www.matis.is
Sjá vef Hollustu úr hafinu.

Hér á Náttúrumarkaði er hægt að kaupa mikið úrval af vörum frá Hollustu úr hafinu. Sjá:
Fjallagrös 20 gr., Fjallagrös 50 gr., Grasasósa, Fjörugrös, Marínkjarni, Söl möluð, Söl heil, Stórþari malaður, Stórþari heill, Íslenskir þarar í bað, Íslenskt baðsalt, Íslenskst baðsalt með þara, Nátthagi - Íslenskt jurtate, Ristaður beltisþari, Sölvasósa og Þarasósa.

Birt:
Aug. 8, 2008
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Uppruni:
Matís ohf
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Vöruþróun á kryddlegnum og maukuðum sölvum“, Náttúran.is: Aug. 8, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/08/08/voruthroun-kryddlegnum-og-maukuoum-solvum/ [Skoðað:Oct. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: