Hellisheiðavirkjun OR hefur hafið stöðuga framleiðslu 45 MW raforku sem Landsnet hf. leiðir síðan frá tengivirkinu við Kolviðarhól áfram í Hvalfjörðinn. Öll orkuframleiðslan fer til nýstækkaðs álvers Norðuráls á Grundartanga. Haustið 2007 er stefnt á að ræsa 35 MW lágþrýstihverfil. Rafmagnið frá honum mun fara á almennan markað á höfuðborgarsvæðinu. Áætlanir Landsnets sem er nýstofnað hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, hljóðar á um að reist verði flutningskerfi með allt að þrem samhliða háspennumösturslínum til „mögulegrar stækkunar“ álversins í Straumsvík á næstu árum, auk þess að gera ráð fyrir háspennulínum (ofanjarðar) til að fullnægja orkuþörf „hugsanlegs“ álvers í Helguvík, sem heldur er ekki til neitt leyfi fyrir. Sjá um nýframkvæmdir á vef Landsnets. Landsneti hf. hefur verið falið, af sínum eigendum, að gera ráðstafanir til að vera tilbúin að flytja þessa orku áleiðis í álverin. Landsnet hefur lagt í mikil fjárútlát í úttærslur og metnaðarfullar kynningar á flutningskerfinu.

En maður spyr sig: „Er nú þegar búið að gefa grænt ljós á þessar framkvæmdir á bak við einhver tjöld“, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi „ekki“ yfirlýsta stóriðjustefnu síðan 2003. Eða eru fjárfestingar af þessum toga hluti af eðlilegri áhættu fyrirtækis í þessum geira? Ekki er gert ráð fyrir lagningu lína í jörðu, jafnvel þó að það sé vel tæknilega mögulegt, en „enný á“ of dýrt að mati sumra. „Tíu sinnum dýrara“ segja forsvarsmenn fyrirtækisns, hver á að borga mismuninn? Hversu mikils virði er landið, útsýnið og önnur nýting þess lands er verður fyrir möstrum af þessari stærðargráðu? Að mati forsvarsmanna Landsnets eru jarðlagnir í rauninni ekki einu sinni inni í myndinni, og ekki reiknuð inn í kostnaðaráætlanir, þó svo að við vitum að framfarir geta orðið gífurlegar á einum áratug (hugsum til baka tíu ár!), sem er u.þ.b. sá tími sem taka myndi að koma upp álveri í Helguvík hvort eð er. Hver segir að álver verði enn vinsæll kostur eftir nokkur ár? Hvað liggur svona mikið á?
-
Því má bæta við að „möguleg“ stækkun álversins í Straumsvík og „mögulegt“ álver í Helguvík kallar á Ölkelduháls- og Hverahlíðsvirkjun.
Sjá umsögn Landverndar
um tillögur að matsáætlunum fyrir jarðvarmavirkjanir á Ölkelduhálsi og Hverahlíð.

Myndin er tekin baksviðs á Hellsiheiðinni þ. 25. 09. 2006.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Oct. 3, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Öll orkuframleiðsla Hellisheiðavirkjunar knýr nú nýju kerin á Grundartanga“, Náttúran.is: Oct. 3, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/19/orkuframleid_hellish/ [Skoðað:Feb. 7, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 19, 2007
breytt: May 3, 2007

Messages: