Þó að Náttúran ætli sér alls ekki að verða talsmaður eins eða neins stjórnmálaflokks, hefur hún skyldum að gegna gagnvart náttúru og umhverfi og leyfir sér því að gera örlitla úttekt á þeim frambjóðendum flokkanna sem kenna sig við áherslur í umhverfismálum. Í dag er fjallað um prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem fram fer dagana 27. - 28. október 2006.

 

 

Þróun auglýsinga frambjóðenda flokkanna til prófkjörs hafa orðið æ fyrirferðarmeiri. Sérstaklega á það við um umfang auglýsinga frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík , sem býður flokksmönnum sínum til kosninga í dag og á morgun. Frambjóðendur verða stærri og stærri og hver öðrum betri og fallegri með hverri auglýsingunni sem líður. Sérstaklega stórir og fallegir voru þeir í dag. Fylgið eykst líka ef marka má langa lista fylgismanna. Barist er hart um annað, þriðja og fjórða sætið og þriðja til fimmta sætið og allt lagt undir. Þekkjandi vel auglýsingaverðlista blaðanna, sem nú eru þrjú á morgunmarkaði, spyr maður sig að sjálfsögðu hvort að kjör á efstu sæti listans séu bundin við efnahag viðkomandi og hvort að raunverulegt vald felist í peningum (eins og í heimsveldinu stóra sem við erum í varnarfjarbúð með)? Niðurstöður prófkjörsins munu án efa leiða það í ljós, og þó, það virðast allir hafa til hnífs og skeiðar sem bjóða sig hér fram hvort eð er.
-
Hvað varðar afstöðu frambjóðanda listans til umhverfismála þá hafa nokkrir frambjóðendur staðið sérstaklega fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn komi nú fram sem hinn vænasti umhverfisverndarflokkur. Áhugi flokksmanna er örugglega margvíslegur en til að fylgja kalli tímans og síauknum kröfum um breytta stefnu í stóriðju- og náttúruvernarmálum (ekki síst í hópi Sjálfstæðismanna sjálfra) hafa nokkrir tekið áherslurnar á umhverfismálaþáttinn upp á sína arma og gert að sínum. T.a.m. Illugi Gunnarsson1), (sjá áherslur Illuga í umhverfismálum), Steinn Kárason2) (sjá „náttúrulegar“ áherslur Steins Kára) og Guðlaugur Þór Þórðarson3) (sjá áherslur Guðlaugs Þórs um „sátt um náttúruna“). Sú sem þessa frétt ritar hefur ekki tekið eftir sérstökum áherslum kvenframbjóðenda Sjálfstæðisflokksin á málaflokkinn, nema ef vera skildi Dögg Pálsdóttir5) sem er þó mjög stuttorð (sjá áherslur Daggar í umhverfismálum, Áherslumál/Umhverfismál). Það er sorglegt út af fyrir sig að svo fáar Sjálfstæðiskonur í Reykjavík hafi tekið málið upp á sína arma og verður án efa ekki til þess að jafna kynjahlutfallið á listanum til alþingiskosninga í vor. Það er því spurning hvort að konur sem hafa áhyggjur af þróun mála á umhverfis- og jafnréttissviði geti með góðu móti haft áhrif á lista Sjálfstæðisflokksins, búi þær í stórborginni Reykjavík? Þær verða allavega að gera upp við sig hvort er þeim mikilvægara, umhverfið eða áhrif kvenna. Birgitta Jónsdóttir Klasen og Unnur Brá Konráðsdóttir fara báðar fram í Suðurkjördæmi og leggja áherslu á umhverfismál, en prófkjör í Suðurkjördæmi er ekki fyrr en 11. nóvember og stendur ekki borgarbúum opið.
En það er svo með góðu fyrirheitin eins og annað í pólitík að þau geta breyst á kjörtímabilinu eða horfið með öllu. En án nýtingar atkvæðisréttar okkar höfum við alls engin áhrif!
-
1) sækist eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi.
2)
sækist eftir 3.-5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi.
3)
sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi.
4) sækist eftir 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi.
Umfjöllun þessi er alls ekki tæmandi og er öllum frjálst að tjá sig frekar um frambjóðendurna. Segðu skoðun þín á „leggðu orð í belg“ hér fyrir neðan.

Birt:
Oct. 27, 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hægri græn eða grænni en aðrir hægri?“, Náttúran.is: Oct. 27, 2006 URL: http://natturan.is/d/2007/03/19/haegri_graen/ [Skoðað:May 31, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 19, 2007
breytt: May 2, 2007

Messages: