Í síðustu viku var tilkynnt um tilnefningar til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands en í hóp þeirra sem tilnefningu hlutu var verkefnið ICCE - Icelandic Carbon Credit Exchange.

Viðskiptahugmyndin og nýsköpunarverkefnið ICCE fól í sér að undirbúa stofnun á íslenskri viðskiptastofu með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og rannsaka ítarlega grundvöll og forsendur slíkrar viðskiptastofu. Niðurstaða verkefnisins er skýr og er það samdóma álit þeirra sem komið hafa að verkefninu að mjög mikil tækifæri séu með tilkomu og stofnun ICCE, jafnt fyrir íslenskt viðskiptalíf, stjórnvöld, viðskiptastofuna sjálfa, bændur og síðast en ekki síst vegna jákvæðra umhverfsiáhrifa. Í ljósi þessa var tekin ákvörðun um stofnun einkahlutafélags sem vinna mun áfram að stofnun fyrstu íslensku viðskiptastofunnar með losunarheimildir og kolefniskredit. ICCE er nú með aðsetur hjá Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetri, en verkefnið var síðastliðið sumar unnið í samstarfi við Innovit og Þorstein Inga Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands. 

Viðskipti með losunarheimildir eða kolefniskredit, sem er viðskiptaeining losunarheimilda, er ný af nálinni í alþjóðlegu samhengi og er slíkur markaður enn í stöðugri mótun í heiminum. Margir alþjóðlegir sérfræðingar telja að markaður með kolefniskredit muni innan tíu ára verða einn stærsti vörumarkaður í heiminum og innan nokkurra áratuga muni hann verða sá stærsti og velta þannig meiri fjármunum en t.d. markaðir með olíu, málma, korn og aðrir sambærilegir markaðir. Ef einungis losunaheimildir Íslands til ársins 2012 eru skoðaðar, á núverandi markaðsverði kolefniskredita, er markaðsvirðið yfir 19 milljarðar króna. Þá er að sjálfsögðu ótalin allur framtíðarkvóti landsins sem og þau gríðarlegu tækifæri sem fólgin eru í því að nýta t.d. endurnýjanlega orkugjafa, jarðvarmatækni, kolefnisbindingu ásamt öðrum aðferðum sem íslendingar geta nýtt sérþekkingu sína í, til að búa til ný kolefniskredit og selja á frjálsum markaði.

Með ICCE yrði búinn til fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki til að nýta umhverfisvænar hátæknilausnir, en með því gætu þau selt umframkvóta sinn. Síðast en ekki síst gæti áhugafólk um umhverfisvernd einfaldlega keypt kvóta án þess að nota hann og stuðlað þannig að minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið. Það er því ljóst að mikil framtíðartækifæri eru fyrir fjölmarga hluteigandi aðila um að ICCE taki frá byrjun þátt í einum mest stækkandi vörumarkaði heims. ICCE – íslensk kolefniskredit ehf. sem stofnað var í árslok 2007 í kjölfar verkefnisins vinnur nú að stofnun kolefnismarkaðarins á Íslandi.

Nemandi: Bergþóra Arnarsdóttir, meistaranemi í hagfræði
Umsjónarmenn verkefnisins voru: Andri Heiðar Kristinsson frá Innovit og Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor við Háskóla Íslands.

Grafík: Iðnaður, Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
Feb. 25, 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „ICCE - Viðskipti með losunarheimildir“, Náttúran.is: Feb. 25, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/02/25/icce-vioskipti-meo-losunarheimildir/ [Skoðað:Feb. 4, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: