Kæri Náttúruunnandi

Þann 25. apríl í ár opnaði vefurinn Náttúran.is gáttir sínar í netheima og verður því 7 mánaða á jóladag. Á ársafmæli vefsins þ. 25. apríl n.k. verður enska útgáfan Nature.is komin í loftið og mun Náttúrumarkaðurinn þá geta þjónað allri heimsbyggðinni með náttúrulegar, lífrænar og umhverfismerktar vörur. Vefurinn hefur vaxið og dafnað á þessum fyrstu mánuðum í loftinu og er að taka á sig mynd sem er vísir af því sem að markmiðið var frá upphafi þ.e. að skapa sameiginlegt svið fyrir umhverfistengda umræðu og viðskipti.

Á árinu 2007 opnuðust augu heimsins upp á gátt fyrir þeim hættum sem að steðja að umhverfinu og þar með lífinu á jörðinni. Flestum er nú ljóst að við höfum þegar unnið það alvarleg spellvirki á lofthjúpnum og jörðinni með óhóflegri neyslu og mengun að í óefni er komið. Þessari þróun verður að snúa við og einn stærsti liðurinn til að það geti orðið að veruleika er að hver og einn einstaklingur taki til í sínum ranni og hugsi alltaf um þau umhverfis- og heilsuáhrif sem að neysla okkar hefur óhjákvæmilega í för með sér.

Vefurinn Náttúran.is er hannaður í kringum einmitt þetta, að vera tækið sem að neytendur geta notað til að þekkja og velja frekar umhverfisvæna- og heilsusamlega kosti umfram aðra og hvetja neytendur til að versla frekar við fyrirtæki sem eru í fararbroddi á þessu sviði.

Kærar kveðjur,

Guðrún Arndís Tryggvadóttir, frumkvöðull að Náttúrunni.is.

Ljósmynd: Páll Jökull Pálsson
Birt:
Dec. 21, 2007
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jólakveðja Náttúrunnar“, Náttúran.is: Dec. 21, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/12/21/jolakveojur-natturunnar/ [Skoðað:Sept. 27, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Dec. 22, 2007

Messages: