Fyrsta farþegaþota heims sem knúin er lífefnaeldsneytisblöndu sem búin er til með þörungum á að fara í loftið á morgun samkvæmt frétt World News. Fer vélin í loftið klukkan 11:15 að staðartíma frá Bush alþjóðflugvellinum í Houston í Texas í Bandríkjunum. Vélin er frá Continental flugfélaginu og af gerðinni Boeing 737-800.
 
Vélin er búin CFM International og CFM56-7B hreyflum. Talsmenn Continental segja að þetta annarrar kynslóðar eldsneyti sem unnið er úr endurnýjanlegum orkugjafa, hafi þann kost að hafa ekki áhrif á fæðuuppskeru eða vatnsnotkun eins og fyrri tilraunir með nýtingu á korni og öðrum lífmassa í eldsneytisgerð. Þörungana má nefnilega rækta í stórum stíl í stöðuvötnum eða jafnvel á sjó og þarf þá ekki að nota dýrmætt ræktunarland.  
 
Rannsóknir sem fram fóru með Boeing 747 þotum á Nýja Sjálandi sýna að hægt er að fljúga slíkum vélum á blöndu sem er að 50 hundraðshlutum lífefnaeldsneyti og venjulegt þotueldsneyti. Það mun vera UOP dótturfyrritæki Honeywell sem útvegar lífefnaeldsneytið fyrir þessa tilraun á morgun.
Birt:
Jan. 7, 2009
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Fyrsta þotan til að fljúga á þörungaeldsneyti í loftið á morgun“, Náttúran.is: Jan. 7, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/01/08/fyrsta-thotan-til-ao-fljuga-thorungaeldsneyti-i-lo/ [Skoðað:Sept. 20, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Jan. 8, 2009

Messages: