Barrskógarhögg á Þingvöllum er heitt umræðuefni bæði í heitu pottunum, í eldhúsum og sumarbústöðum landsins og auðvitað í fjölmiðlum þessa dagana.
Það sem að ruglar fólk sérstaklega í rýminu er að öll umræðan um skógrækt, kolefnisjöfnun og jákvæð áhrif trjáa í umhverfislegu tilliti er eins og gerð að engu með skógarhögginu. En eins og allt hafa barrtré á sér margar hliðar og skógrækt líka. Það er að sjálfsögðu erfitt að sjá hvernig risastjór barrtré geti ógnað UNESCO heimsminjaskráningu Þingvalla en fyrir því hafa verið færð rök sem standa vel og ekki verða tíunduð hér.

Vísindamenn eins og Pétur M. Jónasson vatnalíffræðingur hafa lengi haldið því fram að barrtré sé mikill skaðvaldur fyrir lífríki Þingvallavatns og ætti að víkja. Skógræktarmenn sem sumir stóðu að gróðursetningu á sínum tíma blæðir að sjálfsögðu að sjá trén fjarlægð og botna ekki neitt í neinu lengur og láir það þeim enginn.

Auk líffræðilega þáttarins er spurningin sú hvort að barrtrén séu hluti af menningararfleifð Þingvalla eða ekki og ef þau eru það ekki þá hvort að náttúruleg verðmæti séu frekar falin í þeim gróðri sem var á undan barrskógræktinni og þá hvort að ekki þurfi að „endurhanna“ Þingvallasvæðið og koma því í „upprunanlegt“ horf.

Samt er eins og að kolefnisjöfnunarhlutverk barrskógarins skipti ekki nokkuru máli í þessari umræðu allri og virkar eins og að lofslagsbreytingar skipti engu máli nema þegar að pólitískir eða viðskiptalegir hagsmunir njóti góðs af þeim. Höfundur hefur ekki séð neinar hugmyndir framsettar um hvort að ekki sé hægt að flytja trén annað og leyfa þeim að lifa áfram annnars staðar. Væri ekki sómi af þessum trjám niðurkomnum á öðrum stað á landinu ef Þingvallavatn þolir þau ekki?

Myndin er af kirkjunni og bænum í barrskógarlundi að Þingvöllum. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
July 23, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Eru Þingvellir verri án barrtrjáa?“, Náttúran.is: July 23, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/07/23/eru-ingvellir-verri-n-barrtrj/ [Skoðað:May 29, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: