Þþski smábærinn Staufen er að sökkva vegna jarðhitaborana sem stjórnvöld ákváðu að ráðast í til að beisla umhverfisvæna orku, að því er fram kemur í frétt The Daily Telegraph.

En aðeins tveimur vikum eftir að verktakar höfðu borað 460 feta holu til að vinna hita úr jörðinni, hafa myndast stórar sprungur í byggingum eftir að miðbærinn hefur sigið um tæplega einn sentimetra.

Ráðhúsið, helsta kirkja bæjarins, tveir skólar og 64 aðrar byggingar hafa orðið fyrir verulegum skemmdum vegna þessa. Sérfræðingar segja að byggingar í útjaðri bæjarins hafi á sama tíma hækkað um einn sentimetra.

Samkvæmt Robert Breder, verkfræðingi, má rekja upphaf vandamálsins til þess að verktakar hafi borað í gegnum neðanjarðar vatnsgeymi. Þegar vatnað hafi byrjað að seytla út og þrýstingurinn minnkað, hafi ytri lag jarðvegsins farið að lækka, sem í kjölfarið olli því að yfirborðið - og þar með bærinn - sökk.

Hinir átta þúsund íbúar Staufen hafa miklar áhyggjur af þessari þróun þar sem ljóst er að viðgerðir geta ekki hafist fyrr en bærinn hættir að sökkva.

Svipaðar bortilraunir hrundu af stað hrinu jarðskjálfta nálægt borginni Basel í Sviss á síðasta ári.

Mynd frá Viðskiptablaðinu, Nordicphotos/AFP.
Birt:
April 3, 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Þýskur smábær sekkur eftir jarðboranir“, Náttúran.is: April 3, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/04/03/thyskur-smabaer-sekkur-eftir-jaroboranir/ [Skoðað:Sept. 20, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: