Ef þú vinnur í stóru fyrirtæki eru talsverðar líkur á því að þú munir lifa það að einhverjum starfsmönnum eða jafnvel þér sjálfum verður sagt upp. Margir verða bara vitni að því þegar einhverjir aðrir missa vinnuna, en þú gætir reyndar lent í þeim hópi sem er sagt upp í því augnamiði að auka skilvirkni og hagræðingu í fyrirtækinu.

En hvernig áttu að bregðast við ef þér er sagt upp ?

Á sjálfan uppsagnardaginn verður þú að vera eins róleg/ur og hægt er. Þú getur alltaf öskrað og grátið þegar heim kemur en ekki gera vinnuveitandanum það til geðs að öskra fyrir framan hann.

Gættu réttinda þinna. Fáðu þinn uppsagnarfrest, semdu um starfslokasamning eða biðlaun. Ekki láta snuða þig. Leitaðu til stéttarfélags ef nauðsynlegt er.

Þegar þú ert síðan að jafna þig eftir sjokkið (sem kemur til þín hvort sem þú vilt það eður ei) mundu að allir geta lent í því að starf þeirra er lagt niður eða þeim sagt upp. Þú gerðir ekkert til þess að verðskulda þetta, ekki láta þér detta það í hug. Þú getur hafa lagt þig alla/n fram en í vinnuumhverfi nútímans þýðir það ekki að þú getir ekki misst vinnuna.

Að missa vinnuna er heldur ekki gott fyrir sjálfsálitið. En mundu að þú ert enný á sama manneskjan og þú hefur alltaf verið. Menntunin og þjálfunin fylgir þér, en ekki fyrirtækinu. Byrjaðu strax að leita að nýrri vinnu og ekki gefast upp. Horfðu fram á við en ekki festast í sjálfsvorkun. Þú ert EKKI fórnarlamb.

Gerðu áfram það sem þú ert vön/vanur að gera. Farðu í líkamsrækt, eyddu tíma með fjölskyldunni, skrifaðu æviminningar eða taktu til í garðinum. Allt er betra en að sitja aðgerðarlaus. Og áður en langt um líður verður þú komin/n í nýja vinnu.

 

Birt:
May 7, 2007
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Að lifa af hagræðingu í fyrirtækinu“, Náttúran.is: May 7, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/05/07/lifa-af-hagringu-fyrirtkinu/ [Skoðað:July 6, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: