Umhverfismálasjóður Sameinuðu Þjóðanna setti sér í gær markmið í átaki sínu til að stuðla að plöntun trjáa um allan heim. Takmarkið er 7 milljarðar trjáa fyrir 30. nóvember 2009, en þá hefst loftslagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna í Danmörku þar sem stendur til að koma á nýjum sáttmála um baráttu gegn loftslagsbreytingum í stað Kyoto-bókunarinnar.

Tré binda koldíoxíð meðan þau lifa en losa það þegar þau eru brennd eða þegar þau rotna.

Forstöðumaður umhverfismálasjóðsins, Achim Steiner, sagði samkvæmt frétt Reuters að árið 2006 hafi þeir velt fyrir sér hvort þeir hefðu sett markið of hátt með því að stefna á að planta milljarði trjáa. Svo hafi ekki verið.

„Tveir milljarðar trjáa var líka of lágt markmið. Að planta 7 milljörðum trjáa, rúmlega einu á hvern íbúa jarðarinnar, hlýtur því að vera framkvæmanlegt“ sagði Steiner.

Allir geta tekið þátt í átakinu og milljónir einstaklinga hafa látið verða af því. Hægt er að skrá að maður hafi plantað tré gegnum netið, en ekki er athugað hvort öll tré sem skráð eru hafi í raun verið plantað eða hvort þau lifa.

Einn af talsmönnum Sameinuðu Þjóðanna sagði samkvæmt frétt Reuters að 7 milljarðar trjáa myndu sjúga upp og binda um það bil sama magn af koldíoxíði og losað er í Rússlandi á einu ári. Rússland er þriðji stærsti losandi gróðurhúsalofttegunda í heimi, á eftir Bandaríkjunum og Kína.

Áhugasamir geta tekið þátt í átakinu með því að planta tré og skrá það á heimasíðu herferðarinnar, hér.

Myndin er af víðigrein í kvöldsólinni á Jónsmessu sl. sumar. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
May 14, 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Markmiðið er að planta 7 milljörðum trjáa“, Náttúran.is: May 14, 2008 URL: http://natturan.is/d/2008/05/14/markmioio-er-ao-planta-7-milljoroum-trjaa/ [Skoðað:Aug. 18, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 15, 2008

Messages: