Útgáfufélagið Sumarhúsið og garðurinn er rekið af hjónunum Auði I. Ottesen og Páli Pétursyni en þau hafa á nokkrum árum byggt upp fjölbreytt útgáfufélag með einstakri tilfinningu fyrir náttúru og umhverfi.

Nýverið gáfu þau út bækurnar Lauftré á Íslandi og Barrtré á Íslandi. Þann 27. september nk. stendur Sumarhúsið og garðurinn fyrir ráðstefnunni „Trjágróður til yndis og umhverfsibóta“ í tilefni útgáfu bókanna. Ráðstefnan verður haldin í sal Ferðafélags Íslands Mörkinni 6, Reykjavík. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Grasagarð Reykjavíkur og er helguð trjám og umhverfisáhrifum þeirra. Heiðursgestur og aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Dr. Hugh McAllister, grasafræðingur í Nessgrasagarðnum í Liverpool og höfundur bókarinnar The Genus Sorbus, Mountain ash and other rowans.

Tímaritið Gróandinn er mörgum vel kunnugt og hefur blaðið fjallað um garðyrkju, skógrækt og umhverfismál í 20 ár. Nýverið keypti útgáfan Sumarhúsið og garðurinn Gróandann. Áherslur blaðsins haldast áfram. Aukin áhersla verður á umfjöllun um lífræna ræktun og þær umhverfisvænu leiðir sem hægt er að fara til að bæta líf og heilsu. Í síðasta tölublaði er m.a. fjallað um lyngrósir, rétta líkamsbeitingu, grænmetisfæði, Kolviðarverkefnið, vistvæna poka frá Plastprent, vistvænar fréttir auk þess sem að viðtal er við Guðrúnu Tryggvadóttur frumkvöðul Náttúrunnar.is.

Myndin er af síðasta tímariti Gróandans.
Birt:
Aug. 9, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Græn útgáfa í sókn “, Náttúran.is: Aug. 9, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/08/09/grn-tgfa-skn/ [Skoðað:Sept. 27, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: