Á vorönn Alviðru, umhverfisfræðslusetri Landverndar, eru á dagskrá 3 mismunandi verkefni fyrir grunnskóla auk þess sem í boði er dagskrá fyrir leikskóla.

Auðvitað í Alviðru er dagskrá sem tengist jarðfræði- og gróðurfarsköflum bókanna Auðvitað 1 og 2. Kennarar hafa þarna tækifæri til að glæða námið nýju lífi með því að gefa nemendum kost á að upplifa í náttúrunni sjálfri ýmislegt sem þeir annars aðeins lesa um í bókunum.

Lífið í vatninu er verkefni með vísan til bókarinnar Lífríkið í fersku vatni. Í þessu verkefni skoða nemendur í víðsjá og smásjá lífverur sem þau hafa lesið um en etv. aldrei litið augum. Fjallað er um hringrás lífsins í vatninu og lifandi fiskar eru skoðaðir og handleiknir.

Til móts við vorið er fyrst og fremst fuglaverkefni þar sem farið er út í náttúruna með stóran sjónauka til að sjá fugla í þeirra eðlilega umhverfi. Einnig er stuðst við safn uppstoppaðra fugla.

Krakkar út kátir hoppa er dagsrká fyrir leikskólabörn. Þar er einnig lögð áhersla á fugla, farið er í skógarferð og kanínur og fiskar skoðaðir. Leikskólar sækja í auknum mæli til Alviðru í útskriftarferðir með elstu börnin og er það skemmtilegur þáttur í starfinu.
Vegna nýlega settra laga um gjaldfrjálsan grunnskóla og vegna efnahagsýrengina í samfélaginu hefur nú dregið úr heimsóknum grunnskólanema til Alviðru eftir vaxandi aðsókn undangenginna ára. Skemmtileg og fræðandi vettvangsferð er að sögn kennara, oft hápunktur skólaársins í hugum nemenda. Það er því miður ef skólar treysta sér ekki til að halda þessum þætti skólastarfsins gangandi. En vonandi er þetta aðeins tímabundið ástand sem úr rætist.

Fróðleikur, skemmtun og útivist eru einkunnarorð Alviðru, það á að vera gaman að koma til Alviðru og allir eiga að fara þaðan nokkurs vísari.

Sjá nánar um Alviðru á vefsetri Landverndar.

Birt:
March 3, 2009
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Hjördís B. Ásgeirsdóttir „Vorönn í Alviðru“, Náttúran.is: March 3, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/03/02/voronn-i-alvioru/ [Skoðað:Nov. 30, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 2, 2009
breytt: March 3, 2009

Messages: