Föstudaginn 15. mars flytur Jón Geir Pétursson, doktor í þróunar- og umhverfisfræði og skrifstofustjóri í umhverfis – og auðlindaráðuneytinu, fyrirlestur sem ber heitið „Frá orðum til athafna: Unnið með jafnrétti og loftlagsbreytingar í Úganda“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.

Íslensk stjórnvöld hafa rekið markvissan málflutning fyrir auknum áherslum á jafnréttismál í alþjóðlegu loftslagsviðræðunum og hefur þar orðið nokkuð ágengt. Hins vegar skortir enn mjög á að komið sé af stað raunhæfum verkefnum til að fylgja eftir góðum orðum til að raunverulegar framfarir og umbætur á þessu sviði eigi sér stað.

Úganda er samstarfsland Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og eitt þriggja formlegra samstarfslanda Íslands í Afríku. Eitt þeirra verkefna sem Ísland hefur beitt sér fyrir í Úganda er samþætting jafnréttissjónarmiða í viðbrögðum stjórnvalda við loftslagsbreytingum. Verkefnið hefur fjallað um rannsóknir á samspili þessara þátta, staðið fyrir ráðstefnum og gerð heimildarkvikmyndar og fræðsluefnis. Einn þáttur verkefnisins hefur jafnframt verið að semja og þróa námskeið og námsefni fyrir starfsfólk héraðsstjórna landsins. GEST – Alþjóðlegi jafnréttisskólinn við Háskóla Íslands tók það verkefni að sér að undirbúa, semja og þróa námsefnið í samstarfi við tvö ráðuneyti í Úganda og Jafnréttisdeild Makerere Háskóla þannig að það yrði sniðið að aðstæðum í Úganda. Í erindinu mun Jón Geir fjalla um samstarfið við Úganda.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands. Öll velkomin!

Birt:
March 13, 2013
Höfundur:
Háskóli Íslands
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Frá orðum til athafna: Unnið með jafnrétti og loftslagsbreytingar í Úganda“, Náttúran.is: March 13, 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/03/12/fra-ordum-til-athafna-unnid-med-jafnretti-og-lofts/ [Skoðað:July 1, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 12, 2013

Messages: