Sjálfbærni og umhverfisvernd er nú hluti af utanríkisstefnu Íslands og að hlusta beri á náttúruverndarsamtök.

Seint í síðasta mánuði var haldin ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna sem nefndist Ríó+20. Tilefnið var að liðin voru tuttugu ár frá Ríó-ráðstefnunni um umhverfi og þróun. Megináhersla ráðstefnunnar í júní var á lífríki hafsins, hið bláa hagkerfi - sem er ógnað vegna rányrku, eyðileggingar kóralla og annarra mikilvægra uppeldisstöðva fyrir fisk.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands fjallar um þetta efni í grein í Tímariti Máls og menningar sem út kom fyrir skömmu. Árni segir að íslensk stjórnvöld hafi á síðustu árum skipt um stefnu gagnvart umhverfisverndarsamtökum. Frá því á tíunda áratug fyrri aldar og fram eftir þeim fyrsta á nýrri öld voru náttúruverndarsamtök kölluð þrýstihópar sem til dæmis berðust gegn eðlilegri nýtingu sjávarspendýra. Langvarandi friðun sjávarspendýra mun raska jafnvægi í lífríki hafsins og valda samdrætti í fiskveiðum, sagði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks frá árinu 1995. Umrædd stefnuyfirlýsing var samþykkt í aðdraganda Ríó-ráðstefnunnar, en um langt árabil þar á undan höfðu íslensk stjórnvöld háð áróðursstríð gegn umhverfisverndarsamtökum undir þeim formerkjum að þar væru erlendir þrýstihópar á ferð, segir Árni Finnsson í samtali við Spegil dagsins.

Hlusta á viðtal við Árna Finnsson í Speglinum á Rás 1.

Ljósmynd: Séð niður í sjóinn við Látrabjarg, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
July 11, 2012
Höfundur:
Rúv
Tilvitnun:
Rúv „Sjálfbærni og umhverfisvernd“, Náttúran.is: July 11, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/07/11/sjalfbaerni-og-umhverfisvernd/ [Skoðað:May 31, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: