Neytendasamtökin hafa farið fram á að eftirlitsskýrslur heilbrigðisfulltrúa um framleiðendur og seljendur matvæla verði opinberaðar þannig að neytendur séu upplýstir um ástand veitingastaða, matvöruverslana, ísbúða, bakaría og annarra staða sem selja matvæli. Leggja samtökin til að tekið verði upp svokallað broskarlakerfi að danskri fyrirmynd og skýrslur birtar á netinu og hengdar á áberandi stað í glugga eða við inngang.

Neytendasamtökin hafa nú ítrekað erindi sitt til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá því í febrúar í fyrra um að eftirlit með seljendum matvæla og framleiðendum verði gert opinbert. "Við fengum aldrei svar við þessu erindi. Það er full ástæða til þess að huga að þessum málum. Besta leiðin til þess að auka trúverðugleika eftirlitsstofnana og fyrirtækja er að opinbera eftirlitsskýrslur og úttektir," segir Brynhildur Pétursdóttir, fulltrúi hjá Neytendasamtökunum.

Brynhildur segir Íslendinga ekki vera að finna neitt nýtt upp með slíku kerfi. Danir hafi til dæmis notað svokallað broskarlakerfi hjá seljendum í áratug með góðum árangri. "Eftir hverja úttekt eru skýrslurnar hengdar upp á áberandi stað. Neytendur sjá þá hvenær síðasta úttekt fór fram og hver niðurstaðan var. Broskarl gefur til kynna hvernig fyrirtækið stendur sig. Hér á landi berast oft fréttir af því að gerlar hafi fundist í ís í ákveðnum ísbúðum en neytendur vita ekki hvar. Okkur finnst ekki síður mikilvægt að svona kerfi eigi einnig við um framleiðendur."

Bæði fyrirtæki og heilbrigðisfulltrúar í Danmörku höfðu í fyrstu efasemdir um ágæti kerfisins. "Maður skilur að vissu leyti að fyrirtæki hafi verið neikvæð en það er skrýtið að eftirlitið hafi verið neikvætt. Svona kerfi veitir að vísu eftirlitinu aðhald, alveg eins og fyrirtækjunum, og í ljósi þess sem á undan hefur gengið er einnig mikilvægt að úttektir eftirlitsaðila verði gerðar aðgengilegar öllum," segir Brynhildur.

Hún tekur það fram að um hafi verið að ræða pólitíska ákvörðun í Danmörku. "Það verður að vera þannig þegar innleiða á svona kerfi. Mér finnst mjög flott hjá dönskum yfirvöldum að keyra þetta í gegn."

Að sögn Brynhildar má finna sambærilegt kerfi víðar, til dæmis í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna og Kanada auk nokkurra borga í Bretlandi.

Grafík: Broskallar, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Jan. 26, 2012
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Úttekt heilbrigðisfulltrúa í glugga seljenda“, Náttúran.is: Jan. 26, 2012 URL: http://natturan.is/d/2012/01/26/uttekt-heilbrigdisfulltrua-i-glugga-seljenda/ [Skoðað:May 31, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Feb. 5, 2012

Messages: