Fyrir helgi komust í hámæli deilur innan Þingvallanefndar um skipan dómnefndar sem meta skal hugmyndir almennings um Þingvelli og þjóðgarðinn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þær Ragnheiður Elín Árnadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir voru afar ósáttar við að fulltrúar meirihlutans í Þingvallanefnd lögðu til að Andri Snær Magnason yrði skipaður í nefndina. Sögðu hann vera umdeildan.

Þetta er skrítið. Þorgerður Katrín hefur verið mjög umdeild. A.m.k. innan Sjálfstæðisflokksins. Svo umdeild að hún varð að segja af sér embætti varaformanns flokksins. Ekki nóg með það, afstaða hennar í Evrópumálum hefur kallað yfir hana mikla reiði áhrifamikilla afla innan Sjálfstæðisflokksins. Þó situr hún í Þingvallanefnd. Ragnheiður Elín hefur hins vegar alltaf verið hlýðin og er því ekki umdeild innan flokksins.

Í rauninni hlýtur hver sá sem hefur afskipti af þjóðmálum að vera umdeildur, hafi viðkomandi eitthvað fram að færa á annað borð. Það er bara fyrirsláttur hjá þeim stöllum að Andri Snær sé ófær um að sitja í þessari nefnd af þeim sökum. Hin raunverulega ástæða er að hann talar fyrir náttúruvernd, gegn þeirri stóriðjustefnu sem flokksforustan hefur fylgt um áratugi. Slíkir menn eru ávallt stimplaðir sem óalandi og óferjandi. Óhamingja Þorgerðar Katrínar í þessu máli er að þær stöllur fundu ekki neitt annað á Andra Snæ en að hann væri umdeildur.

Hvað Ragnheiði Elínu áhrærir er slík afstaða skiljanleg, jafnvel sjálfsögð. Hún fylgir stefnu Sjálfstæðisflokksins og finnst rétt að hafna þeim sem tala fyrir náttúruvernd. Á hinn bóginn hefði mátt ætla að Þorgerður Katrín stæði aðeins ofar á vígvelli þjóðmálaumræðunnar; að hún hefði meiri yfirsýn og væri ekki jafn djúpt sokkin í skotgrafirnar og Ragnheiður Elín. Kannski þráir Þorgerði Katrín að verða óumdeild á ný – innan flokksins.

Hitt er óumdeilt að Andri Snær Magnason er mikils metinn fyrir málflutning sinn og einurð. Bæði hér heima og erlendis. Slíkur er árangur hans að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Þingvallanefnd hafa ekkert betra á hann en að hann sé umdeildur.

Birt:
May 11, 2011
Höfundur:
Árni Finnsson
Uppruni:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Að vera umdeildur“, Náttúran.is: May 11, 2011 URL: http://natturan.is/d/2011/05/11/ad-vera-umdeildur/ [Skoðað:Oct. 16, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: