Gengið til liðs við Evrópu - Hvatning til landeigenda

Vallanes á Fljótsdalshéraði hefur nú verið lýst svæði án erfðabreyttra lífvera (GMO free territory).  Vallanes er bújörð með fjölþættri framleiðslu lífrænna matjurta og náttúruafurða og hefur frá árinu 1996 haft alþjóðlega vottun þess efnis að öll ræktun og landnýting fer fram með lífrænum aðferðum. En í lífrænni ræktun er notkun erfðabreyttra lífvera bönnuð.

Með þessari yfirlýsingu gengur Vallanesbýlið til liðs við þau svæði og framleiðendur sem nú þegar bindast böndum um því nær gjörvalla Evrópu undir samheitinu "svæði án erfðabreyttra lífvera"(En: GMO free regions).

Yfirlýsingunni er ætlað að vera hvatning til annarra landeigenda, framleiðenda og sveitarstjórna á Íslandi um að gera slíkt hið sama, þ.e. að láta í ljós þann ásetning sinn að hindra sleppingu erfðabreyttra lífvera út í náttúru Íslands, til dæmis útiræktun á erfðabreyttum plöntum.

Yfirlýsinguna og frekari upplýsingar um svæði án erfðabreyttra lífvera (GMO free regions) má kynna sér á heimasíðu Kynningarátaks um erfðabreyttar lífverur (sjá Yfirlýsing) sem og á www.gmo-free-regions.com.

Grafík: Ísland án erfðabreyttra lífvera, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Nov. 19, 2010
Höfundur:
Eymundur Magnússon
Tilvitnun:
Eymundur Magnússon „Vallanes á Fljótsdalshéraði lýst svæði án erfðabreyttra lífvera“, Náttúran.is: Nov. 19, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/11/19/vallanes-fljotsdalsheradi-lyst-svaedi-erfdabreyttr/ [Skoðað:April 14, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: