Fjórir eru látnir og á annað hundrað slasaðir eftir mengunarslys í súrálsverksmiðju í vesturhluta Ungverjalands. Slysið er sagt vera eitt hið versta í landinu fyrr og síðar.

Neyðarástandi var lýst yfir í þremur sýslum í Ungverjalandi í dag eftir að rauð, báxítmenguð leðja rann frá verksmiðjunni í stríðum straumum. Auk þeirra fjögurra sem hafa fundist látnir er sex til viðbótar saknað.

Leðjan flæddi um að minnsta kosti sjö þorp og bæi, þar á meðal Devecser, þar sem ástandið var sagt afar alvarlegt. Svo öflugt var flóðið að það skolaði bifreiðum út af vegum og skemmdi brýr og hús.

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, segir að mengunarslysið í súrálsverksmiðju í vesturhluta landsins megi hugsanlega rekja til mannlegra mistaka. Fjórir létu lífið þegar ein milljón rúmmetra af báxít-menguðu vatni flæddi úr verksmiðjunni gegnum nokkur þorp. Að minnsta kosti 120 slösuðust.

Neyðarástandi var lýst yfir í þremur héruðum fyrr í dag. Búið er að stöðva lekann frá súrálsverksmiðjunni og góðar líkur eru taldar á því að hægt verði að koma í veg fyrir að úrgangsvatnið renni í Dóná.

Birt:
Oct. 6, 2010
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Mengunarslys líklega af mannavöldum“, Náttúran.is: Oct. 6, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/10/06/mengunarslys-liklega-af-mannavoldum/ [Skoðað:March 22, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: