Fiskútflutningsfyrirtækið Sæmark hefur sótt um umhverfisvottun samtakanna MSC (Marine Stewardship Council) fyrir þorsk, ýsu og steinbít sem fyrirtækið flytur út. Þetta eru mikil tíðindi í sögu umhverfismála á Íslandi, því að hingað til hafa hérlend fyrirtæki og samtök í þessum geira ekki sýnt áhuga á samstarfi við erlenda aðila hvað þetta varðar. MSC er án vafa útbreiddasta og virtasta vottunarkerfi sjálfbærra sjávarafurða í heiminum í dag.

Sæmark er frumkvöðull
Sæmark er fyrsti aðilinn á Íslandi sem sækist eftir MSC-vottun. Fyrirtækið hefur verið í samstarfi við MSC um nokkurt skeið og meðal annars farið í gegnum ákveðið grunnmat til undirbúnings vottunar. Ef vottun fæst mun steinbíturinn frá Sæmarki jafnframt verða fyrsti MSC-vottaði steinbítur heimsins.

Fjögur fiskvinnslufyrirtæki
Fiskvinnslan Íslandssaga hf., Hraðfrystihús Hellissands hf., Oddi hf. og Þórsberg ehf. sjá Sæmarki fyrir fiski, en öll gegna þessi fyrirtæki lykilhlutverki í þeim byggðarlögum þar sem þau eru starfrækt. Hér er um umtalsvert magn að ræða, enda gera þessi fjögur fyrirtæki út 23 fiskiskip sem falla undir umrætt verkefni. Kvóti þessara skipa á yfirstandandi fiskveiðiári er um 6.200 tonn af þorski, 3.300 tonn af ýsu og 1.100 tonn af steinbíti. Aflinn er fenginn á línu, handfæri og í dragnót og fer ýmist ferskur eða frosinn á markaði í Bandaríkjunum, Bretlandi og á meginlandi Evrópu.

Aukin eftirspurn
Verslunarkeðjur í Evrópu gera í auknum mæli kröfur um að fiskur sem þær kaupa sé MSC-vottaður. Þeir sem fengið hafa slíka vottun á afurðir sínar eru því betur í stakk búnir en aðrir til að koma þeim á markað, nánar tiltekið þann markað sem að öðru jöfnu greiðir hæsta verðið. Að sögn Svavars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Sæmarks, sækist Sæmark eftir MSC-vottun til að mæta vaxandi eftirspurn, enda telur fyrirtækið að vottunin styrki stöðu þess á mörkuðum bæði austanhafs og vestan, jafnframt sem nýir markaðir munu opnast. Svavar bendir einnig á að með vottuninni verði auðveldara fyrir fyrirtækið að koma á framfæri upplýsingum til neytenda um sjálfbærni veiða og vinnslu, en slík upplýsingamiðlun verður sífellt mikilvægari eftir því sem umhverfisvitund neytenda eykst.

Vottunarstofan Tún
Vottunarstofan Tún hefur aflað sér réttinda til að sjá um úttektir vegna MSC-vottunar. Gera má ráð fyrir að úttektarferlið taki um það bil 14 mánuði, þannig að Sæmark gæti hampað fyrstu MSC-vottuninni á Íslandi sumarið 2011. MSC-úttektir eru opin ferli, sem allir geta fylgst með og gert athugasemdir við. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að hafa samband við Dr. Gunnar Á. Gunnarsson hjá Vottunarstofunni Túni, en hann hefur yfirumsjón með úttektinni og heldur utan um lista yfir skráða hagsmunaaðila.

Loksins
Umsjónarmaður þessarar bloggsíðu fagnar því að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki séu loksins komin inn á þessa braut, sem vafalaust á eftir að styrkja stöðu íslenskra sjávarafurða á mörkuðum erlendis í náinni framtíð!

(Af bloggsíður Stefáns Gíslasonar. Bloggfærsla Stefáns  er einkum byggð á frétt á heimasíðu MSC þ. 27. apríl sl., og á frétt World Fishing Today).

Birt:
May 1, 2010
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Sæmark sækir um MSC vottun“, Náttúran.is: May 1, 2010 URL: http://natturan.is/d/2010/05/01/saemark-saekir-um-msc-vottun/ [Skoðað:July 26, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: