Svandís Svavarsdóttir umhverifsráðherra segist ekki vita hvað Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra eigi við þegar hún segist "sannfærð um að öllum hindrunum í vegi Suðvesturlínu, sem er forsenda fyrir þróun orkuháðs iðnaðar á þessu svæði, verði rutt úr vegi þannig að framkvæmdir við hana geti hafist á næsta sumri."

Jóhanna mælti svo á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ á laugardaginn.

Svandís segir að Skipulagsstofnun sé búin að klára málið og að kærufresti eigi að ljúka í fyrstu viku desember.

"Þá hef ég tvo mánuði til að úrskurða, ef kæra berst," segir Svandís. "Þannig horfir þetta við mér þannig að ég veit ekki, hún þarf að skýra þetta betur sjálf."

Spurð hvort hún hyggist flýta málinu eða nýta tvo mánuðina, segir hún að það velti á eðli þeirra kæra sem kunna að berast.

Enn hefur engin kæra borist og Svandís segir að ef það gerist ekki teljist málið fullafgreitt frá Skipulagsstofnun.

Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður VG, undraðist ummæli forsætisráðherra í fréttum RÚV í gær og sagði að stundum væri gott að segja minna en meira. Spurð hvort hún taki undir þau orð Árna, að ummæli Jóhönnu séu óheppileg, segir umhverfisráðherra: "Það er ósköp lítið um málið að segja núna, meðan það er í þessu ferli. Mér finnst ekki tímabært að vera að tjá mig um það eitthvað efnislega. Það er forsætisráðherra að skýra það hvað liggur þarna að baki." klemens

Birt:
Nov. 23, 2009
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Ekki rætt að ryðja hindrunum úr vegi “, Náttúran.is: Nov. 23, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/11/23/ekki-raett-ao-ryoja-hindrunum-ur-vegi/ [Skoðað:May 8, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: