Söfn um allt Suðurland og í Vestmannaeyjum bjóða upp á fjölbreytta menningardagskrá helgina 5. – 8. nóvember 2009. Yfirskrift dagskrárinnar verður Safnahelgi á Suðurlandi með undirtitilinum Matur og menning úr héraði því auk hins sögulega og menningarlega hluta dagskrárinnar verður minnt á gamlar og nýjar hefðir í matargerðarlist í héraðinu.

Það eru Samtök safna á Suðurlandi og Matarkista Suðurlands sem standa að dagskránni með hátt í eitt hundrað aðilum. Verkefnið ný tur stuðnings Menningarráðs Suðurlands.
Hugmyndin að baki Safnahelgi á Suðurlandi er að þjappa þeim fjölmörgu aðilum sem vinna við sunnlenska menningu saman um eina sameiginlega viðburðahelgi og bjóða íbúum héraðsins og gestum að njóta þess fjölbreytta menningarstarfs sem er í boði. Á veitingastöðum verður boðið upp á það besta í sunnlenskri matarhefð. Boðið er upp á dagskrá frá fimmtudegi til sunnudags, en staðirnir eru þó með mismunandi opnunartíma. Safnahelgin verður formlega opnuð í tengslum við málþing sem haldið verður í tilefni 60 ára afmælis Byggðasafnsins í Skógum fimmtudaginn 5. nóvember.

Meðal fjölmargra dagskráratriða má nefna sýningar, tónleika, fyrirlestra, upplestra og leiðsagnir. Svo verður víða hægt að smakka á gömlum og nýjum réttum eins og ástarpungum, heitu súkkulaði, lunda, fýl, sviðum, humarsúpu, pönnukökum, sunnlensku grænmeti og kartöfluréttum. Söfn og veitingastaðir verða opin upp á gátt og starfsfólk þeirra tekur fagnandi á móti gestum og gangandi.

Sjá dagskrá Safnahelgar Suðurlands í pdf-bækling hér.
Athugið að til að finna söfn og staðsetningar þeirra getur þú slegið inn nafnið hér í leitarvélina efst á síðunni til að finna einstaka aðila eða farið beint á Græna kortið til að sjá öll söfn og menningarsetur á landinu.

„Græna Íslandskortið, Ísland og heimurinn í grænu ljósi“,sýning i Listasafni Árnesinga er framlag Náttúran.is til safnahelgarinnar. Sjá nánar hér að neðan:

Listasafn Árnesinga
Opið fimmtudaga - sunnudaga kl. 12:00-18:00. Aðgangur ókeypis. Veitingasala. Afþreying fyrir börnin.

Föstudagur 6. nóv. til sunnudags 8. nóv.
Kl. 12:00-18:00 Þræddir þræðir og Einu sinni er. Í gangi eru tvær sýningar sem kallast á. Það má segja að önnur fjalli um handverk og myndlist á meðan hin fjallar um handverk og hönnun, en umræður um mörk lista og hönnunar lengi verið ofarlega á baugi.
Á sýningunni Þræddir þræðir eru verk eftir fjórar veflistakonur sem vinna með þráðinn sem vettvang átaka, hvort heldur um mörk myndlistar eða togstreitu milli kynja og pólitískra afla en ímyndir þráðarins birtast á ólíkan hátt hjá fjórum kynslóðum. Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir og í sýningarskrá ritar Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur, en hún hefur einnig fengist við myndlestur.
Sýningin Einu sinn er kemur frá Handverki og hönnun. Hugmyndin að henni var að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar með því að stefna saman tveimur ólíkum listamönnum. Þema sýningarinnar er „gamalt og nýtt“ og á sýningunni má sjá fjölda nýrra og áhugaverðra nytjahluta sem unnir eru af þessum tólf pörum.

Laugardagur 8. nóvember

Kl. 14:00-15:00 Náttúruvefurinn www.natturan.is - „Græna Íslandskortið, Ísland og heimurinn í grænu ljósi“. Sýnd verða græn kort sem þróuð hafa verið víða um heim auk þess sem vefútgáfa „Græna Íslandskortsins“ verður kynnt. Tilgangur grænkortagerðar er að gera vistvæna kosti á sviði viðskipta, menningar og ferðaþjónustu um allan heim sýnilegri og aðgengilegri. Grænt Íslandskort/Green Map Iceland en samvinnuverkefni Náttúran.is, fyrirtækis sem starfrækt er í Hveragerði, Land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands og alþjóðlega verkefnisins Green Map System.

Kl. 15:00 Þráður eða lína – listasmiðja í teiknun. Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður með meiru leiðbeinir gestum, efni á staðnum endurgjaldslaust til afnota.

Sunnudagur 9. nóvember
Kl. 14:00-15:00 Náttúruvefurinn www.natturan.is - kynning eins og daginn áður.
Kl. 15:00 Sýningarspjall á sunnudegi. Inga Jónsdóttir safnstjóri ræðir við gesti um sýningarnar og skapar umræður um verkin og markmið sýninganna.

Mynd: Forsíða dagskrár um Safnahelgi á Suðurlandi.

Birt:
Nov. 6, 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Safnahelgi á Suðurlandi 2009 - Matur og menning úr héraði“, Náttúran.is: Nov. 6, 2009 URL: http://natturan.is/d/2009/11/02/safnahelgi-suourlandi-2009/ [Skoðað:Dec. 6, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Nov. 2, 2009
breytt: Nov. 6, 2009

Messages: