Landvernd hefur undanfarin sumur staðið fyrir ferðum í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Farið hefur verið á svæði sem orkufyrirtækin hafa horft til með það fyrir augum að anna þeirri eftirspurn eftir orku sem áform um frekari uppbyggingu á stóriðju hefur í för með sér. Leiðsögumenn í þessum ferðum hafa verið úr röðum fræðimanna og náttúruunnenda og hafa þeir í aðdraganda ferðanna boðið upp á fyrirlestra um náttúrufar og menningarminjar svæðanna. Þannig hafa ferðirnar verið blanda af hefðbundnum gönguferðum í anda Ferðafélagsins og fræðslufundum í anda þeirra sem Landvernd hefur staðið fyrir í gegnum tíðina.

Ellert Grétarsson, ljósmyndari, var með í ferðum síðasta sumar um Langasó, í Þjórsárver, á Ölkelduháls, Brennisteinsfjöll og Krþsuvík og skráði með myndavél þær náttúruperlur sem horft er til og í húfi eru. Öll þessi svæði hafa að geyma dýrmætar perlur, náttúruperlur, sem okkur hefur verið treyst fyrir. Óvissa ríkir um framtíð þessara svæða. Enn er þó von og afar mikilvægt að sem flestir kynni sér áformin um örlög þeirra áður en það verður of seint. Með þetta fyrir augum hefur Landvernd fengið leyfi til þess að gera myndir Ellerts aðgengilegar almenningi og kunna samtökin honum bestu þakkir fyrir. Vonarperlurnar eru 68 glæsilegar myndir á 23 blaðsíðum sem er hægt að nálgast hér.

Frétt af vef Landverndar .

Ljósmynd: Ellert Grétarsson. Hér er horft af hálsinum ofan við Seltún í átt til Austurengjahvers.

Birt:
Nov. 4, 2007
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Vonarperlur“, Náttúran.is: Nov. 4, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/11/04/vonarperlur/ [Skoðað:July 1, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: