Lifnaðarhættir okkar í dag ganga út á gengdarlausa sóun. Ein lítil heimsókn á skyndibitastað kostar haug af rusli. Við kaupum ódýra og lélega vöru sem endist ekkert. Nýjum reiðhjólum er hent að hausti, útlilegugræjurnar eru skildar eftir á tjaldstæðinu, handverkfæri þola ekki notkun og dagblöðum og auglýsingapósti rignir yfir okkur. Allur þessi varningur verður að rusli og endar á ruslahaugunum. En ef við skoðum venjulegt heimilissorp þá má skipta því í þrjá flokka: Efni ýmiskonar, lífrænn úrgangur og brennanlegur úrgangur.

  • Efnin eru málmar og gler.
  • Lífrænn úrgangur eru matarleifar.
  • Brennanlegur úrgangur er pappír, pappi, plast og timbur.

Semsagt, hráefni, orka og orka...

Í dag er ruslaiðnaðurinn frumstæður. Mestmegnis af ruslinu er safnað saman, pressað í bagga og þeir settir í geymslu á ruslahaugum. Semsagt, það er verið að byggja upp lagera fyrir framtíðina til að vinna úr. Hráefnin og lífrænni úrgangurinn er þar saman í bland. Hráefnin fara ekki neitt en lífrænni úrgangurinn brotnar niður og rotnar. Við það losnar metan-gas sem er hrein orka. Sorpa vinnur gott verk með því að klæða haugana með plastdúk og byggja söfnunarkerfi sem fangar metanið áður en það sleppur út í andrúmsloftið. Að vísu hægir þessi baggapressa á rotnuninni en vonandi kemur það ekki að sök. Það væri óskandi að bílafloti höfuðborgabúa myndi nýta sér þetta betur og keyra á metan-gasi. Til að ná sem bestum árangri á sem skemmstum tíma þyrfti að hefja átak sem beindist að þeim bílum sem keyra hvað mest. Hér væri mjög sniðugt að beina athyglinni að ruslabílum, en með því myndi hringurinn lokast. Einnig ber að skoða strætisvagna, leigubíla og vinnubíla sem eru í stöðugum akstri. Það nægir að leita til eigenda þessara ökutækja, sem flestir eru opinberir aðilar og þar ætti ákvörðunin að vera auðveld, vilji er allt sem þarf.

Síðan skulum við skoða brennanlega úrganginn. Um er að ræða óhemjulegt magn af orku sem væri hægt að nýta og þar að auki er brennsla á timbri og pappír CO2 hlutlaus og það er mikill kostur. Annar brennanlegur úrgangur er plast sem er olía. Í dag fer eitthvað af timburkurli í Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Afgangurinn er kurlaður og urðaður. Hér má gera betur. Vinsælt er í Evrópu að pressa pillur úr sagi, kallað Pellets á hinum Norðurlöndunum. Pillurnar eru síðan brenndar í sjálfvirkum ofnum til húshitunar. Þrjú kílógrömm af venjulegu timbri jafngilda einu kílógrammi af olíu að orkuinnihaldi. Orkan fer eftir vatnsinnihaldi, því þurrara þeim mun meiri orka. Viðarpillurnar hafa einungis 8% rakainnihald og innihalda því 42% af orku jafný yngdar olíu.

Pappír og bylgjupappi er safnaður saman og sendur til Norðurlandanna til endurvinnslu. Hér mætti líka gera mikið betur því í fyrsta lagi kostar það orku að flytja allan þennan pappír út og orka er sama og losun á koltvísýringi en þar að auki þarf að borga með úrganginum. Hér væri miklu skynsamara að nýta þá orku sem felst í pappírnum. Það má hreinlega brenna pappírinn í þar tilgerðum ofnum en þá vaknar spurning um mengun af prentsvertunni. Prentsvertan inniheldur þungmálma sem myndu þá losna út í andrúmsloftið. Við það að senda pappírinn til útlanda erum við að flytja út þessa þungmálmamengun því þeir hverfa ekki.

Önnur aðferð við að nýta orkuna úr brennanlegum úrgangi er að hita hann svo mikið að kolefnasamböndin riðlast og losna, án þess að bruni eigi sér stað. Þá er möguleiki að safna saman gastegundunum og flokka á mismunandi hitastigi. Þar með er hægt að glíma við mengunina af þungmálmum og öðrum aukaefnum á viðeigandi hátt en kolvetnunum væri safnað saman og breytt í eldsneyti á gas eða fljótandi formi.

Við syndum í úrgangi sem við kunnum ekkert með að fara og köstum tækifærunum á glæ. Er ekki kominn tími til að breyta því?

Höfundur er vélaverkfræðingur
Birt:
Oct. 12, 2007
Höfundur:
Einar Einarsson
Tilvitnun:
Einar Einarsson „Ruslahaugur nútímans verða gullnámur og olíulindir framtíðar“, Náttúran.is: Oct. 12, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/10/12/ruslahaugur-ntmans-ver-gullnmur-og-olulindir-framt/ [Skoðað:Oct. 16, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 14, 2008

Messages: