Frétt sjónvarpsins í gær um að Alcan gæti þrátt fyrir atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði byggt nýtt álver með 350 þúsund tonna framleiðslugetu samkvæmt gildandi deiliskipulagi var ekki sennileg. Yrði slíkt gert – jafnvel þótt löglegt væri – þyrfti að rífa niður tvo kerskála með 110 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Það þþddi framleiðslutap upp á 6 – 8 mánuði hið minnsta. Því næst þyrfti að byggja tvo nýja kerskála og það um það bil tæki tvö ár. Allt byggingarferlið tæki þannig vel á þriðja ár með framleiðslutapi sem nemur nærri 300 þúsund tonnum og myndi taka nokkur ár að vinna upp. Enn lengri tíma tæki að vinna upp það goodwill sem fyrirtækið á inni hjá Hafnfirðingum.

Þessi frétt sjónvarpsins er fremur dæmi um hasar sem hleypur í menn eftir erfiðar og spennandi kosningar. Kvöldinu áður komu fram fullyrðingar í fréttum að allt að 700 andstæðingar álvers hefðu skráð lögheimili í Hafnarfirði fyrir kosningar. Fljótt kom á daginn að engin innistæða var fyrir slíkum fullyrðingum.

Aðalatriðið er að stækkun álvers í Hafnarfirði var hafnað af umhverfisástæðum og það stendur þar til nýjar kosningar hafa farið fram, sbr viðtal Fréttastofu RÚV við Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðing í hádegisfréttum í gær.

Ekki hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík og það mun reynast Century erfiðara verkefni en Alcan í ljósi línulagna sem bæjarfélög syðra er lítt hrifin af (Sandgerðisbær hefur hafnað slíkum háspennulínum í sínu bæjarstætði). Álver á Húsavík er enn lengra undan og þar hvílir sönnunarbyrðin á Alcoa; að fyrirtækið hyggist ekki stækka það álver með virkjun Skjálfandafljóts og tilheyrandi háspennulínum úr Bárðardal, yfir Mývatnssveit og Aðaldal, auk þess sem framburður fljótsins í Skjálfanda myndi stöðvast. Andstaðan við slíkar framkvæmdir eru enn töluverðar á Húsavík. Álver í Þorlákshöfn er enn lengra undan. Bæði Century Aluminum og Alcoa eiga eftir að sýna fram á að ekki verði farið fram á stækkun úr 250 þúsund tonn í hagkvæmari stærð og hvaðan þessi fyrirtæki hyggjast fá orku til stækkunar. Það er ekki trúverðugt að halda því fram að 250 þúsund tonna álver nái stærðarhagkvæmni.

Landsvirkjun heldur uppteknum hætti og heldur áfram virkjunarundirbúningi hvað sem tautar og raular. Gildir einu hvort um ræðir Þjórsá eða Þjórsárver.

Ég tel að með sigrinum í Hafnarfirði hafi fengist frestur; ráðrými til að ná betri viðspyrnu í baráttunni fyrir verndun náttúru Íslands. Þeirri skoðun vex fylgi að gera verði verndaráætlun áður en haldið er áfram virkjana- og stóriðjustefnu stjórnvalda. Að því leyti var auðlindafrumvarp iðnaðarráðherra hænuskref fram á við en þar eð bráðabirgðaákvæði frumvarpsins gerði ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu virkjana fram til 2010 var allt tal ráðherra um sættir ótrúverðugt. Gott að það náði ekki fram að ganga.

Ég vek athygli á leiðara Morgunblaðsins í gær um atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði. Bþsna góður.

Höfundur: Árni FInnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands
Birt:
April 3, 2007
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Um úrslitin í Hafnarfirði“, Náttúran.is: April 3, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/05/11/um-rslitin-hafnarfiri/ [Skoðað:Oct. 16, 2021]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: May 11, 2007
breytt: Jan. 1, 2008

Messages: