Alcoa mun leggja fram tilboð í Alcan á morgun. Tilkynnt hefur verið um tilboðsverðið en það munu vera 73,25 bandaríkjadalir á hlut eða sem samsvarar 33 milljörðum dala eða 2.100 milljarða króna fyrir fyrirtækið.

Miðað við síðustu ársreikninga beggja fyrirtækjanna yrði ársvelta sameinaðs fyrirtækis um 54 milljarðar bandaríkjadala og hagnaður fyrir afskriftir og skatta 9,5 milljarðar dala. Framleiðslugetan yrði nærri 30 milljónir tonna af áli og hjá því myndu starfa 188 þúsund manns í 67 löndum.

Ýmsar getgátur hafa verið á lofti í grasrótinni á undanförnum misserum um hvað gæti gerst ef að álver á Íslandi myndu lenda i eign eins aðila og þær hættur sem leynast raunverulega í stóriðjustefnunni fyrir Ísland. Þetta útspil álrisanna ætti að gefa hugarfluginu byr undir báða vængi því kannski er það ekkert fjarri lagi að næsta skrefið verði að Rusal eða Rio Tinto eignist allan pakkann og fái Íslenska orku á silfurbakka þaðan í frá og okkur sem þjónustuaðila við sig til frambúðar.

Víst er að hagsmunir álfyrirtækja eru ekki sniðnir til að gleðja smáríki og skapa störf á norðurhjara og kannski tími til kominn að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir smæð okkar og umkomuleysi í veröldinni og högum okkur í samræmi við það að við viljum halda sjálfstæði okkar til frambúðar.

Myndin er tekin af byggingu Fjarðaráls í Reyðarfirði þ. 22.08.2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
May 7, 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Alcoa og Alcan saman í ker?“, Náttúran.is: May 7, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/05/07/alcoa-og-alcan-eina-sng/ [Skoðað:Dec. 3, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: May 8, 2007

Messages: