Helstu líffæri sem teljast til æxlunarfæra kvenna eru eggjastokkar, eggrásir, leg og legöng en hér verður einnig fjallað um brjóstin í tengsl við brjóstagjöf.
Starfsemi æxlunarfæranna fylgir tíðahringnum, sem er að að meðaltali tuttugu og átta dagar. Fyrsti dagur tíðahrings miðast við upphaf blæðinga. Tíðahringnum er stjórnað af hormónum sem framleidd eru í heiladingli. Heiladingulshormónin eru eggbússtýrihormón (ESH) og gulbússtýrihormón (GSH).
Estrógen eru aðallega framleidd í eggjastokkum en einnig í fylgju á meðgöngu. Estrógenhormón stuðla að þroskun eggs fyrir egglos, þykknun legslímu eftir tíðablæðingar og síðkomnum kvenkyneinkennum. Þau hafa einnig áhrif á kalkbúskap beina og sjá um vökva- og saltjafnvægi líkamans. Estrógen vinna hugsanlega gegn æðakölkun með því að minnka kólesterólmagn í blóði og þess vegna eru hjartasjúkdómar fátíðari hjá konum á frjósemisskeiði en hjá jafngömlum körlum.
Prógesterón myndast í gullbúi eggjastokka eftir egglos. Það örvar þroskun slímhúðar legs í konu og býr því legið undir það að taka við fósturvísi. Prógesterón styrkir ennfremur legvöðvana og dregur úr hreyfingu þeirra þannig að fóstrið nái bólfestu.
Offramleiðsla á prógesteróni veldur aukinni matarlyst, þyngdaraukningu, þreytu, þunglyndi, kyndeyfð og gelgjubólum.
Jurtir hafa verið notaðar af konum og handa konum í aldaraðir, enda er til ógrynni jurta sem geta ráðið bót á ýmsum kvillum er herjað geta á æxlunarfærin. Margar þessara jurta innihalda efni sem líkjast hormónum líkamans. Líkaminn getur því nýtt sér þau sem byggingarefni hormóna sem skortur er á. Einng eru til margar jurtir sem gagnast konum á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu.
Birt:
April 13, 2007
Tilvitnun:
Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir „Æxlunarfæri kvenna og brjóst“, Náttúran.is: April 13, 2007 URL: http://natturan.is/d/2007/04/13/xlunarfri-kvenna-og-brjst/ [Skoðað:Aug. 4, 2020]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: April 26, 2011

Messages: