John Wilkes frá Emerson College hélt fyrirlestur og sýnikennslu í Sesseljuhúsi að Sólheimum dagana 9. og 10.09.2005. John Wilkes er þekktur fyrir kenningar sínar í rennslifræði vatns og orkubreytingar í vatni og umhverfi og hvernig nýta má þessa þætti bæði í umhverfislegum tilgangi, landslags- og listhönnun, við ræktun og matvælavinnslu m.a. til að auka gæði matvæla og hollustu. John er forstöðumaður Vibela rannsóknarstofnunarinnar í rennslis- og orkufræðum við Emerson College í Sussex í Bretlandi, en þar hefur um langt skeið verið unnið að umhverfis- og mannræktarfræðum í anda Rudolf Steiner, Austurríkismannsins, sem var upphafsmaður lífelfdra fræða (anthroposophy).

Mörg fræðirita John Wilkes hafa verið gefin út og nýjasta bók hans er “Flowforms. The rhythmic power of water”. Fyrirlestur John Wilkes á Sólheimum er mikill fengur fyrir umhverfisáhugafólk, matvæla- og drykkjarvöruframleiðendur og sérstaklega þá sem stunda framleiðslu lífrænna matvæla og náttúrulækningar auk þeirra, sem vinna við dreifingu og gæðamál drykkjarvatns almennt. Námsstefnan á Sólheimum var haldin á vegum Umhverfisstofnunar Sólheima Sesseljustofu, Vottunarstofunnar Túns og Sunnan Vinda. Vibela rannsóknarstofnunin vinnur nú að undirbúningi alþjóðlegrar ráðstefnu hér á landi, að ári um þessi málefni. Ljósmyndin er af John Wilkes á fyrirlestri hans. Glæran í bakgrunni sýnir vatnskristal lífeflds vatns.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir

Birt:
Sept. 7, 2005
Uppruni:
Sesseljuhús
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „John Wilkes með fyrirlestur og sýnikennslu í Sesseljuhúsi“, Náttúran.is: Sept. 7, 2005 URL: http://natturan.is/d/2007/03/22/johnwilkes/ [Skoðað:Dec. 5, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: March 22, 2007
breytt: May 1, 2007

Messages: