Öryggisblað (safety data sheet) er lögbundið fylgirit efna sem teljast hafa áhrif á heilsu og umhverfi. Þar er m.a. að finna innihaldslýsingu, eiginleika efnisins, meðhöndlun og viðbragðsáætlun.

Fjölmörg efni sem við notum dags daglega eru hættumerkt, valda ertingu, roða, sviða eða eru hættuleg umhverfi og beinlínis eitruð. Forðist óþarfa notkun á efnavöru og þá sérstaklega hættumerktri. Öryggisblöð skulu vera aðgengileg á íslensku.

Á Íslandi eru framleiðendur og innflytjendur efna skyldugir að láta notanda, sem notar efnið í atvinnuskyni, í té öryggisblað sem inniheldur allar helstu upplýsingar um eiginleika efnisins og hvernig skuli bregðast við slysum. Framleiðendur og innflytjendur geta einnig gert öryggisblöðin aðgengileg á netinu. Upplýsingarnar sem eiga að koma fram á blaðinu eru eftirfarandi:

 1. Heiti efnis eða efnavöru og upplýsingar um framleiðanda, innflytjanda eða seljanda
 2. Samsetningu/upplýsingar um innihald
 3. Hættuflokkun
 4. Skyndihjálp
 5. Viðbrögð við eldsvoða
 6. Viðbrögð við efnaleka
 7. Meðhöndlun og geymsla
 8. Takmörkun áverkunar (exposure)/persónuhlífar
 9. Eðlis- og efnafræðilega eiginleika
 10. Stöðugleika og hvarfgirni
 11. Eiturefnafræðilegar upplýsingar
 12. Hættur gagnvart umhverfi
 13. Förgun
 14. Flutningar
 15. Lög og reglugerðir
 16. Aðrar upplýsingar

Innihald öryggisblaða á erindi við alla, óháð því hvort efnin séu notuð í atvinnuskyni eða ekki. Viðbrögð við slysum og skyndihjálp er ekkert örðuvísi fyrir fólk þó svo að efnið hafi verið notað til einkanota. Því er farið fram á að allir framleiðendur/innflytjendur sem yrðu að gera öryggisblöð samkvæmt reglugerð 1027/2005 [um öryggisblöð] óháð því hvort um er að ræða atvinnustarfsemi eða ekki, skrái þau á Náttúran.is þó þau séu til einkanota. Með því er einnig uppfyllt skilyrðin um skrásetningu varúðar og hættusetninga ásamt hættumerkingum samkvæmt reglugerð 236/1990 [um meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni ásamt áorðnum breytingum], sem farið er fram á undir fyrirsögninni „Hættuleg efni” hér á Náttúran.is.

Grafík: Tákn sem notað er eingöngu hér á vefnum þegar fjallað er um öryggisblöð almennt ©Náttúran.is.

Birt:
27. september 2011
Höfundur:
Finnur Sveinsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Öryggisblað - viðmið“, Náttúran.is: 27. september 2011 URL: http://natturan.is/d/2007/05/08/ryggisbla-vimi/ [Skoðað:21. júní 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 8. maí 2007
breytt: 14. júní 2014

Skilaboð: