Það sem áður var skilgreint sem úrgangur eða rusl er í dag hráefni eða auðlind fyrir aðra framleiðslu. Úrgangur og rusl er ekkert annað en auðlind á villigötum. Næstum allt er hægt að endurnota eða endurvinna. Lykillinn er að flokka úrgang rétt til að það sé mögulegt. Röng flokkun getur gert það að verkum að ómögulegt sé að endurvinna úrgang á síðari stigum. Með endurvinnslu minnkar einnig þörfin á urðun sem minnkar áhættu á jarðvegsmengun. Urðun er einnig dýr, en sem endurspeglast ekki í verði vara þar sem að það er innifalið í útsvari til sveitarfélaga.

Best af öllu er hins vegar að forðast að kaupa „rusl“. Hversu oft er ekki verið að kaupa umbúðir sem fara beint í ruslið þegar heim er komið. Helstu endurvinnsluflokkar eru skilgreindir af hverju sveitarfélagi fyrir sig og er þar stuðst við Fenúrflokkana. Mögulegir endurvinnsluflokkar á Reykjavíkursvæðinu eru mun fleiri en úti á landi. Það skýrist af því að enduvinnsla er beintengd hagkvæmni og ef hagkvæmni fæst ekki út úr flutningi á hráefni til enduvinnslu um langan veg er það látið vera. Sveitarfélög eru einnig misjafnlega í stakk búin til að taka við efni til endurvinnslu en stöðug framför er á þessu sviði.

Öll sveitarfélög taka þó við spilliefnum og langflest við flokkuðum pappír (dagblöðum, slétum pappa og bylgjupappa), flöskum og skilagjaldskildum umbúðum (gosflöskum og áldósum), fernum, timbri, fatnaði, húsbúnaði, garðaúrgangi og lyfjum. Á höfuðborgarsvæðinu er víða er hægt að koma úrgangi frá sér í græna og bláa grenndargáma. Einnig í flestum sveitarfélögum.

Á Endurvinnslukortinu og app-útgáfu Endurvinnslukortsins eru allar upplýsingar um endurvinnslu og þá staði sem taka á móti skilagjaldsskyldum umbúðum.

Tilgangur Endurvinnslukortsins og Endurvinnslu-appsins er að fræða almenning um endurvinnslu og gefa eins fullkomið yfirlit og mögulegt er yfir hvar á landinu sé tekið við hverjum endurvinnsluflokki.

Með skipulagi heimafyrir getur flokkunin verið skemmtileg fyrir alla fjölskyldumeðlimi að taka þátt í. Að hrúga öllu upp í bílskúrinn, kjallarann eða herbergi er ekki góð aðferð. Merkt ílát hvort sem það eru pokar eða önnur ílát einfalda verkið mjög. Á dagatalinu ættu ákveðnir dagar að vera merktir sem „Sorpu-dagar“ (eða nefndir eftir sorpstöðinn þinni). Þannig hrannast ekki upp birgðir sem leiða bara til leiðinda.

Græna tunna Reykjavíkurborgar er einungis venjuleg tunna sem sótt er sjaldnar en venjulegar sorptunnur og því er sorpgjaldið lægra fyrir húseigendur. Blátunnan (Pappírstunnan í Reykjavík) tekur við pappír af ýmsu tagi (dagblöðum, tímaritum, markpósti og öðrum prentpappír). Endurvinnslutunna Gámaþjónustunnar og Græna tunna Íslenska gámafélagsins taka við endurvinnsluflokkunum: Dagblöð, tímarit, bæklingar, pappi, mjólkurfernur, plastumbúðir, niðursuðudósir og minni málmhluti. Rafhlöður og gler má ekki setja í Grænu tunnuna.

Skilagjaldskyldar umbúðir

Skilagjald er á ökutækjum, pappaumbúðum, umbúðum úr plasti, hjólbörðum, heyrúlluplasti, veiðarfærum og spillefnum. Allar gosumbúðir þ.e. áldósir og plastflöskur eru skilagjaldsskildar. Það þýðir að fyrir hverja framleidda dós/flösku (og alla aðra skilgjaldsskilda flokka) þarf framleiðandi að borga 16 krónur í Úrvinnslusjóð. Þennan pening innheimtir framleiðandi síðan að sjálfsögðu hjá okkur með því að leggja hann á vöruna. Úrvinnslusjóður greiðir síðan til baka þessar 16 krónur til þess sem skilar umbúðunum á réttan stað, þ.e. til endurvinnslu. Gjaldið er hvatning til að skila umbúðunum aftur í hringrásina þannig að hráefnið endurnýtist en verði ekki að rusli. Rusl þarf að urða eða eyða á annan mengandi og kostnaðarsaman hátt og því er raunverulegur sparnaður og minna álag á umhverfið með skilagjaldskerfinu. Þú getur safnað og skilað og fengið peningana til baka hjá Endurvinnslunni hf. sem sér um að hringrásin virki. Margar hjálparsveitir og líknarfélög taka einnig á móti skilagjaldsskildum umbúðum sem þeir aftur selja í fjáröflunarskini.

Skilagjald er einnig á fernum enda eru þær dýrmætt hráefni. Einstaklingar geta þó enn sem komið er ekki skilað einstaka fernum og fengið gjaldið heldur er þeim safnað saman af sorpstöðvum eða hjálparsveitum og félagasamtökum til fjáröflunar.

Rafhlöðum er tekið við hjá Efnamóttökunni og á mörgum bensínstöðvum þar sem Efnamóttakan hefur sett upp sérstakar tunnur fyrir rafhlöður. Kassa undir rafhlöðuúrgang má nálgast hjá endurvinnslustöðvum. Þeir hjálpa til við að halda utan um notaðar rafhlöður heima fyrir sem síðan er hægt að koma til endurvinnslu. Mikilvægt er að henda ekki rafhlöðum í venjulegt rusl því þær geta mengað mikið og lengi frá sér. Endurhlaðanlegar rafhlöður (hleðslurafhlöður) eru miklu umhverfisvænni en einnota rafhlöður. Þær má nota allt að 1000 sinnum.

Skoða Endurvinnslukortið. 

Skoða app-útgáfu Endurvinnslukortsins.

Birt:
27. júní 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Endurvinnsla“, Náttúran.is: 27. júní 2013 URL: http://natturan.is/d/2007/06/26/gardurinn-endurvinnsla/ [Skoðað:22. janúar 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 7. ágúst 2015

Skilaboð: