Að borða lítið af kjöti er eitt það umhverfisvænsta sem hægt er að gera. Það þarf mikið magn vatns, heys, korns og ekki síst lands til þess að framleiða hvert kíló af kjöti. Íslenskt kjöt er þó betra en flest annað kjöt í Evrópu að þessu leyti. Íslenska fjallalambið gengur um frjálst úti í guðsgrænni náttúrunni og er því umhverfisvænt á vissan hátt þó að segja megi að ein mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar, eyðingu skóga og gróðurs, megi rekja til stjórnlausrar sauðfjárbeitar. Við framleiðslu kjöts er oft hægt að finna leyfar af hormónum, eiturefnum og lyfjum sem hafa verið notuð við framleiðslu kjötsins. Við lífræna ræktun kjöts er bannað að nota hormóna, að nota tilbúinn áburð og eiturefni á tún og engi þar sem fóður er ræktað og síðast en ekki síst er alveg bannað að nota lyf í fyrirbyggjandi tilgangi. Það þýðir að einungis er leyfilegt að nota lyf til að lækna sjúk dýr en ekki til að koma í veg fyrir að þau verði sjúk. Ofnotkun lyfja er verulegt vandamál, bæði fyrir dýr og manneskjur þar sem að æ fleiri bakteríur eru að verða ónæmar fyrir lyfjunum.

Matvælastofnun (MAST) er ábyrg fyrir eftirliti með dýraheilbrigði og innlendum og innfluttum kjötvörum sem seldar eru hér á landi.

Grafík: Tákn kjötvörudeildar Náttúrumarkaðarins, hönnun: Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran er ehf.

Birt:
13. febrúar 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Kjötvörur á Náttúrumarkaði“, Náttúran.is: 13. febrúar 2014 URL: http://natturan.is/d/2007/11/02/kjtvrur-nttrumarkai/ [Skoðað:16. febrúar 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. nóvember 2007
breytt: 28. mars 2014

Skilaboð: