Vinnuumhverfi er hugtak sem tekur yfir bæði vinnustaði og vörur og þá vinnu sem á eða mun eiga sér stað með vöruna. Notkunarleiðbeiningar á umbúðum eiga því að tryggja það að varan sé „notuð“ á öruggan hátt.

Það sem notkunarleiðbeiningar eiga að ná yfir er að leiðbeina um það hvernig varan sé notuð án þess að vera heilsuspillandi. Varan má ekki vera skaðlegt heilsu manna og það er framleiðandans og síðan söluaðilans að tryggja það að skilaboð um rétta notkun komi skýrt fram til kaupandans.

Skaðvaldar geta t.d. verið: hávaði, loftmengun, röng efnanotkun, útgufun og rangar vinnustellingar:

Hávaði - Verður til hávaðamengun við notkun vörunnar, mælt í dB(A)?

Loftmengun - Varast þarf að eiturefni (mörg efni geta verið óskaðleg í réttum hlutföllum en eiturefni í röngum hlutföllum) leysist úr læðingi og komist í andrúmsloftið.

Röng efnanotkun - Krefst notkun vörunnar sérstakrar efnanotkunar? Ef já, hvaða efna? Eru efnin varasmöm fyrir heilsu manna? Leiðbeiningar vegna viðhalds og rekstur viðkomandi vöru þarf að vera fyrir hendi. Það getur til dæmis verið til lítils að kaupa umhverfisvæna vöru ef rekstur hennar krefst mikillar óumhverfisvænnar efnanotkunar!

Útgufun - Efni leka fyrr eða síðar út í andrúmsloftið. Því er framleiðanda skylt að skilgreina nákvæmlega hvaða efni eru í vörunni. Hæg uppgufun getur haft áhrif til lengri tíma þótt efni í lofti mælist ekki yfir mörkum í stuttri mælingu.

Staða umhverfismála hefur á mörgum sviðum batnað með betri þekkingu og tækni, til dæmis hreinsibúnaður í iðnaði. En ný þekking hefur einnig leitt til nýrra uppgötvana. Mengun sem á sér stað í dag er á margan hátt flóknari en hún var áður fyrr, uppsprettur mengunar eru fleiri og dreifðari og neytendamynstur hefur breyst gífurlega. Uppspretta efnalosunar út í andrúmsloftið er meðal annars frá neysluvörum okkar í dag, á meðan vörurnar eru í notkun.

Brómeruð eldhemjandi efni og þalöt eru meðal þeirra algengu efna sem finnast í heimilistækjum og fötum allt í kringum okkur en hafa mengandi áhrif á heilsu og umhverfi. Brómeruð eldhemjandi efni hafa lengi verið notuð og eins og nafnið gefur til kynna, til að gera plastvörur og áklæði hitaþolnari/eldþolnari. Þennan algenga efnaflokk er líklegast að finna í tölvunni þinni og áklæðinu á stólnum. Í dag hefur neytandinn val, hægt er að fá bæði áklæði og tölvubúnað sem inniheldur engin brómeruð eldhemjandi efni. Mörg tilbúin efni eru eitruð og ber að varast en ekki síst hafa hin fjölmörgu efni sem virðast skaðlaus í fyrstu neikvæð áhrif til langs tíma. Mjög erfitt getur verið að sýna fram á áhrif slíkra efna. Því gildir hér að fara varlega.

Rangar vinnustellingar - Gildir t.d. um stillingu húsgagna og tækja. Eru til nákvæmar leiðbeiningar um vöruna, vinnustellingar og mögulegar stillingar? T.d. á vinnustólum, borðum, skjám, lyklaborðum, stjórnborðum og vinnuvélasætum.

Líffræðilega erum við ennþá frummenn, hönnuð til þess að vera á stöðugri hreyfingu úti í náttúrunni. Steinn eða þúfa hefur líklegast verið fyrsta vinnuborðið. Í dag er þessu öðruvísi farið, líkaminn sem hannaður er til hreyfingar situr langtímum saman í sömu stellingunum. Þetta hefur leitt til þess að æ fleiri þjást af álagi vegna slæmrar vinnuaðstöðu og vinnuumhverfis. Algeng eru axlar- og hálsmein en þó er ,,músaröxl” að verða stærsta vandamálið. Við innkaup ætti að taka tillit til vinnuhagræðis, það er að segja að notkun vörunnar getur haft áhrif á heilsu. TCO merking tekur bæði til umhverfisins og vinnuhagræðis vörunnar. TCO merking nær meðal annars yfir tölvuskjái, lyklaborð og skrifstofustóla.

Grafík: Tákn sem notað er eingöngu hér á vefnum þegar fjallað er um vinnuumhverfi almennt ©Náttúran.is.

Birt:
21. mars 2013
Höfundur:
Finnur Sveinsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Vinnuumhverfi - viðmið“, Náttúran.is: 21. mars 2013 URL: http://natturan.is/d/2007/05/25/vinnuumhverfi/ [Skoðað:20. júní 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. maí 2007
breytt: 14. júní 2014

Skilaboð: