Fiskur er holl uppspretta próteins og vítamína. Hann inniheldur einnig Omega-3 fitusýrur sem eru fyrirbyggjandi gegn mörgum sjúkdómum.

Nokkrir aðilar hafa þróað staðla og vottunarkerfi fyrir sjálfbæra nýtingu sjávarfangs. Umfangsmest þeirra er Marine Stewardship Council (MSC), en einnig hafa Friends of the SeaFriends of the Sea, KRAV í Svíþjóð, Naturland í Þýskalandi og stjórnvöld nokkurra ríkja þróað slík kerfi að einhverju marki. Vottunarstofan Tún hefur aflað sér faggildingar til vottunar samkvæmt MSC kerfinu. Tún hefur þegar vottað nokkur fiskvinnslu- og fisksölufyrirtæki samkvæmt staðli MSC um rekjanleika afurða úr sjálfbærum fiskveiðum. Þá hefur Tún ennfremur vottað handfæra-, línu- og dragnótaveiðar á þorski og ýsu á Íslandsmiðum samkvæmt staðli MSC um sjálfbæra nýtingu fiskistofna. 

Í reglum um sjálfbærar fiskveiðar er tekið tillit til ýmissa þátta. Þannig byggist mat á fiskveiðum skv. staðli MSC m.a. á mati á fiskistofninum sjálfum og stýringu stofnstærðar, á umhverfisáhrifum fiskveiðanna (t.d. veiðiaðferð og aukaafla tegunda sem kunna að vera í hættu), og fiskveiðistjórnuninni. Færa má rök fyrir því að handfæra- og línuveiðar (þar sem fiskurinn „velur“ að vera veiddur) séu umhverfisvænni en neta- og togveiðar. Misjafnt er hvort tekið er tillit til orkunotkunar. Almennt er talið að fyrir hvert kílógramm af fiski sem er veiddur þurfi um einn líter að eldsneyti. Frá orkusjónarmiði er verið að afla minni orku með meiri.
Því miður hafa fitusækin þrávirk efni þann leiðinlega ferðavana að ferðast frá heitum löndum til kaldari. Því safnast þessi efni frekar upp í lífverum á norðurhveli en við miðbaug. Yfirleitt eru áhrif þeirra lítil í neðstu þrepum fæðukeðjunnar en ofar í keðjunni verður magnið meira og getur haft áhrif á lífverur. Þetta er til dæmis ástæða þess að ísbirnir og háhyrningar á norðurhveli eru með tiltölulega mikið magn eiturefna í líkamanum. Mannfólkið er eins og ísbirnir og háhyrningar efst í fæðukeðjunni.
Matvælastofnun er ábyrg fyrir eftirliti með fiskmeti sem selt eru hér á landi.

Grafík: Tákn sjávarfangsdeildar Náttúrumarkaðarins, hönnun: Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran er ehf.

Birt:
7. febrúar 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Sjávarfang á Náttúrumarkaði“, Náttúran.is: 7. febrúar 2014 URL: http://natturan.is/d/2007/11/02/sjvarfang-nttrumarkai/ [Skoðað:16. febrúar 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. nóvember 2007
breytt: 28. mars 2014

Skilaboð: