Í hádeginu í gær, 18. mars voru Grænir dagar formlega settir á Háskólatorgi en Grænir dagar eru fimm daga dagskrá þar sem umhverfismál eru sett í forgrunn í þeim tilgangi að styrkja umhverfisvitund innan sem utan Háskólans. Sjá dagskrána hér.

Gaia, félag meistaranema í Umhverfis- og auðlindafræði sem skipuleggur Græna daga, veitti í annað sinn Umhverfisverðlaun Grænna daga en þau eru veitt einstaklingi, hópi eða deild innan Háskóla Íslands, sem hefur með einhverjum hætti stuðlað að aukinni umhverfisvitund innan háskólans og í íslensku samfélagi. Árið 2012 hlaut Verkfræði- og náttúruvísindasvið verðlaunin fyrir innleiðingu sorpflokkunarstöðva innan háskólans.

Í ár var það Guðni Elísson, prófessor við Hugvísindadeild háskólans sem hlaut verðlaunin. Guðni hefur á undanförnum árum skrifað mikið um umhverfismál, fjallað um loftslagsbreytingar jarðar og hvernig stjórnmálaumræða hér á landi vanrækir og hunsar þær breytingar sem eru yfirvofandi, ekki bara í lífríki náttúrunnar heldur einnig í samfélagi okkar mannanna og á sviði alþjóðamála. Guðni hefur einnig bent á það hvernig stjórnmálaöfl hafa ítrekað gert lítið úr niðurstöðum vísindalegra rannsókna á sviði umhverfismála og ýtt til hliðar varnaðarorðum fræðimanna um umhverfisáhrif framkvæmda og gjörða mannfólksins.

Í niðurstöðu dómnefndar, sem ákveður hver hlýtur verðlaunin ár hvert, segir að skrif Guðna Elíssonar séu mikilvæg í baráttunni fyrir bættri umhverfisvitund og þeim markmiðum sem þjóðir setja sér til að nálgast sjálfbæra þróun og tryggja jafnan rétt komandi kynslóða. Loftlagsbreytingar eru breytingar sem munu hafa víðtæk áhrif bæði hér á landi sem og annars staðar í heiminum og mikilvægt að stjórnmálaflokkar, hvar sem þeir eru staðsettir í hinu pólitíska litrófi, viðurkenni alvarleika þeirra áhrifa sem loftlagsbreytingar valda og bregðast við af alvöru, því ekkert sé áunnið ef fyrirheit um viðbrögð eru einungis orðin tóm. Framlag Guðna til umhverfisvitundar er því að mati dómnefndar nauðsynlegur hlekkur í fræðslu til almennings um umhverfismál og ákveðið aðhald við þau stjórnvöld sem fara með ákvörðunarvald á viðbrögðum í umhverfismálum, málum sem varða okkur öll.

Ljósmynd: Davíð Fjölnir Ármannsson afhendir Guðna Elíssyni umhverfisviðurkenningu Gaia.

Birt:
19. mars 2013
Tilvitnun:
Davíð Fjölnir Ármannsson „Guðni Elísson hlýtur umhverfisverðlaun Grænna daga“, Náttúran.is: 19. mars 2013 URL: http://natturan.is/d/2013/03/19/gudni-elisson-hlytur-umhverfisverdlaun-graenna-dag/ [Skoðað:25. maí 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: