BílþvotturFlestar sjálfvirkar eða hálfsjálfvirkar bílaþvottastöðvar byggja á háþrýstiþvotti og burstaþvotti. Einnig er oft undirvagn bílanna þveginn og eykur það vatnsnotkunina. Stundum eru sérstakir dekkjaburstar einnig til staðar.

Þvottur á hverjum bíl tekur yfirleitt 6-8 mínútur og eru þvegnir um 20.000 bílar á ári í meðalstórri bílaþvottastöð fyrir fólksbíla. Ekki er enn til algjörlega umhverfisvæn bílaþvottastöð á Íslandi og er þar viðskiptatækifæri fyrir einhvern sem vill marka sér sérstöðu á markaðnum.

Notkun á háþrýstiþvotti dregur úr vatnsnotkun. Samt sem áður þarf 250 til 400 lítra af vatni til að þvo einn bíl. Efni sem notuð eru eru freyðisjampó og fituleysir, auk ýmissa annarra sérhæfðra efna.

Umhverfisáhrif frá venjulegri bílaþvottastöð eru mikil einkum á veturna. Frá þvottastöðunum koma skaðlegir málmar eins og blý, króm, nikkel, kadmíum og sínk. Einnig losa bílaþvottastöðar talsvert magn af olíuefnum og þurfa að vera með mjög góða olíuskilju. Mikið af lífrænum efnum er einnig í afrennsli bílaþvottastöðva og tengist magnið tensíðum sem eru í hreinsiefnunum.  Ftalatið DEHP sem hefur neikvæð áhrif á heilsu getur verið í afrennsli og einnig háarómatískar olíur sem taldar eru hugsanlega skaðlegar.

Að lokum má nefna að afrennsli frá bílaþvottastöðvum getur verið með mjög hátt sýrustig eða mjög lágt sýrustig, og miklar sveiflur geta verið á sýrustigi. Allt gerir þetta það að verkum að mjög erfitt er að hreinsa afrennsli frá bílaþvottastöðvum og bílaþvottastöðvar geta reyndar valdið tjóni á hreinsikerfum sem fyrir eru.

Í umhverfisvænum bílaþvottastöðum erlendis fer þó fram viss hreinsun á affallsvatninu áður en því er veitt inn í almenna fráveitukerfið. Afrennsli frá bílaþvottastöðvum er yfirleitt skaðlegt lífríkinu nema hreinsibúnaður umfram olíuskilju sé fyrir hendi.

Það er því til mikils að vinna að fara á umhverfisvænar bílaþvottastöðvar þar sem notuð eru fituleysar sem byggðir eru úr náttúrulegum efnum, og þar sem þess er gætt að nota ætíð bestu efni sem fáanleg eru á markaðnum á hverjum tíma. Bestu bílaþvottastöðvar í heiminum eru þær sem hreinsa vatnið svo vel að þær geta endurnýtt það, þannig að ekkert fer út í fráveitukerfið.

Sjá viðmið fyrir hina ýmsu vöruflokka hér í flokknum „Vistvæn innkaupaviðmið“ sem er að finna undir flipanum „Viðmið“ hér til hægri á síðunni.

Grafík: Íkon fyrir bílþvott, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
4. maí 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, Náttúran „Vistvæn innkaupaviðmið fyrir bílþvott“, Náttúran.is: 4. maí 2012 URL: http://natturan.is/d/2010/07/25/vistvaen-innkaupavidmid-fyrir-bilthvott/ [Skoðað:20. júní 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. júlí 2010
breytt: 4. maí 2012

Skilaboð: